- Auglýsing -
- Auglýsing -

Íslendingarnir gátu farið brosandi af leikvelli

Janus Daði Smárason leikmaður íslenska landsliðsins og norska liðsins Kolstad. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslenskir handknattleiksmenn gátu gengið með sigurbros á vör af leikvelli að loknum fyrstu leikjum sínum í norsku úrvalsdeildinni sem hófst í kvöld. Bæði Kolstad og Drammen fóru með sigur úr býtum.


Sigvaldi Björn Guðjónsson og Janus Daði Smárason gengu til liðs við endurbætt lið Kolstad frá Þrándheimi í sumar. Þeir voru í stórum hlutverkum hjá liðinu þegar það vann Nærbø, 29:27, á heimavelli. Kolstad var fimm mörkum yfir þegar fyrri hálfleikur var að baki, 17:12. Nærbøliðið, sem vann Evrópubikarkeppnina í vor, veitti harðari mótspyrnu í síðari hálfleik en allt kom fyrir ekki.


Sigvaldi Björn skoraði fjögur mörk, þar af eitt úr vítakasti. Janus Daði skoraði þrisvar sinnum og átti þrjár stoðsendingar.

Voru allt í öllu

Óskar Ólafsson og Viktor Petersen Norberg voru allt í öllu hjá Drammen þegar liðið marði út eins marks sigur á Fjellhammer í Lørenskoghallen, 30:29. Óskar skoraði sjö mörk í átta skotum og átti fimm stoðsendingar. Viktor skoraði einu marki færra en Óskar en átti sjö stoðsendingar. Skotnýting Viktors var lakari en fimm skota hans misstu marks.


Drammen var með tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 14:12.


Næsti leikur Drammen verður við Kolstadmenn um næstu helgi en þá mætast liðin öðru sinni í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar. Kolstad vann fyrri leikinn í Þrándheimi á síðasta laugardag með tveggja marka mun, 28:26.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -