- Auglýsing -
- Auglýsing -

Íslendingarnir kveðja EHV Aue í sumar

Ólafur Stefánsson hættir þjálfun þýska liðsins EHV Aue í sumar. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Ólafur Stefánsson þjálfari og Sveinbjörn Pétursson markvörður kveðja þýska 2. deildarliðið í EHV Aue í vor. Liðinu bíður fall í 3. deild í lok keppnistímabilsins eftir eins árs veru í 2. deildar. EHV Aue virðast allar bjargir bannaðar í neðsta sæti eftir tap fyrir næst neðsta liðinu, TuS Vinnhorst, með sjö marka mun í gærkvöld, 24:17.

Sveinbjörn stóð fyrir sínu og vel það gegn TuS Vinnhorst. Hann varði 16 skot, þar af eitt vítakast, 43% hlutfallsmarkvarsla. Stefan Hanemann markvörður TuS Vinnhorst gerði enn betur og varði 22 skot, 58%.

Fyrir helgina tilkynnti EHV Aue að Ólafur þjálfari láti af störfum eftir að keppnistímabilinu lýkur. Hann kom til liðsins í nóvember. Þá þegar var staða Aue-liðsins erfið. Samningur Ólafs nær aðeins til loka leiktíðarinnar. Í tilkynningunni, sem hægt er að nálgast neðst í þessari grein, kemur einnig fram að Sveinbjörn og fleiri leikmenn kveðji félagið í sumar.

Sveinbjörn Pétursson, markvörður. Mynd/EHV/Aue

Annað fjögurra ára tímabil

Sveinbjörn markvörður, sem er í miklum metum hjá félaginu, er að ljúka öðru fjögurra ára tímabili með Aue. Hann samdi á ný við félagið 2020 eftir að hafa verð hjá því frá 2012 til 2016 á tíma Rúnars Sigtryggssonar sem þjálfara.

Sveinbjörn flutti heim sumarið 2016 og gekk til liðs við Stjörnuna en sneri til baka til Þýskalands fjórum árum síðar, á tímum heimsfaraldurs, þegar Aue lék í 2. deild. Sveinbjörn tók slaginn með Aue í 3. deild tímabilið 2022/2023 og var á meðal bestu markvarða deildarinnar.

Ekki kemur fram í tilkynningu EHV Aue hvað Sveinbjörn og Ólafur taka sér fyrir hendur, aðeins að Sveinbjörn hafi í hyggju að róa á önnur mið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -