Íslendingaliðin og höfuðandstæðingar í portúgölskum karlahandbolta, Sporting Lissabon og FC Porto unnu örugglega fyrri viðureignir sínar í undanúrslitum portúgölsku bikarkeppninnar í gær. Síðari viðureignirnar fara fram á sunnudaginn og þarf mikið að ganga á til þess að viðsnúningur verði sem kemur í veg fyrir að Sporting og Porto mætist í úrslitaleik í Santo Tirso norður af Porto 7. júní.
Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði fjögur mörk í 16 marka sigri Porto á Avanca á heimavelli, 37:21. Yfirburðir Porto voru miklir og forskot liðsins 15 mörk að loknum fyrri hálfleik, 23:8.
Ricardo Brando og Antonio Llamazares voru markahæstir hjá Porto með níu mörk hvor.
ABC de Braga veitti Sporting aðeins meiri mótspyrnu þótt sigur bikarmeistara síðasta árs væri aldrei í verulegri hættu, lokatölur 38:29, fyrir Sporting á heimavelli.
Orri Freyr Þorkelsson skoraði fjögur mörk fyrir Sporting. Bræðurnir Francisco og Martín Costa voru markahæstir eins og stundum áður með sex mörk hvor.