Liðin þrjú sem íslenskir handknattleiksmenn leika með í portúgölsku 1. deildinni raða sér áfram í þrjú efstu sæti deildarinnar eftir leiki 16. umferðar sem fram fór í gærkvöld. Meistarar Sporting og liðsmenn Porto eru jöfn í efstu tveimur sætunum með 46 stig hvort. Benfica er í þriðja sæti með 42 stig, fjórum stigum á undan liði eyjaskeggjanna á Madeira.
Orri Freyr öflugur
Orri Freyr Þorkelsson skoraði fimm mörk í sex skotum í 18 marka sigri Sporting á CF Os Belenenses, 36:18, á heimavelli í gærkvöld. Martím Costa var markahæstur með sjö mörk. Norski markvörðurinn André Kristensen átti enn einn stórleikinn og var með 54% hlutfallsmarkvörslu. Félagi hans Mohamed Aly var ekki síðri með 50% markvörslu og ljóst að leikmenn Belenenses voru í mestu vandræðum við að skora.
Stiven markahæstur
Stiven Tobar Valencia var markahæstur hjá Benfica með sex mörk í níu skotum í 16 marka sigri Benfica á útivelli í heimsókn til SC Horta, 40:24. Staðan í hálfleik var 22:14, Benfica í vil.
Þorsteinn hafði hægt um sig
Stórskyttan Þorsteinn Leó Gunnarsson hafði hægt um sig og skoraði eitt mark úr sínu eina markskoti í öruggum sigri Porto þegar liðið sótt Nazaré Dom Fuas heim, 38:29. Ricardo Brandão var markahæstur leikmenna Porto með sjö mörk í sjö skorum.