- Auglýsing -
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið galt afhroð í Brno

Íslenska landsliðið leikur við Tékka. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið var kjöldregið af grimmum Tékkum í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik karla í Mestska hala Vodova-keppnishöllinni í Brno í Tékklandi í kvöld, 22:17, eftir að heimamenn voru með tveggja marka forystu að loknum fyrri hálfleik, 12:10.

Ekki stóð steinn yfir steini í sóknarleik íslenska landsliðsins nánast hvar sem litið var enda er vafalaust komnir nokkrir áratugir síðan íslenskt landslið hefur ekki skorað nema 17 mörk, og það nánast með herkjum, í keppnisleik þegar eitthvað er í húfi. Orð eins og skipbrot og afhroð koma upp í hugann eftir að hafa verið vitni að leiknum.

Uppfært: Íslenska landsliðið skoraði 16 mörk í átta marka tapi fyrir Svíum á HM 2015, 24:16.

Stakkaskipti fyrir sunnudaginn

Fyrir vikið eru Tékkar komnir í efsta sæti riðilsins með sex stig eftir fjóra leiki og sætið endurheimtir íslenska liðið ekki nema með sex marka sigri í Laugardalshöll á sunnudaginn. Þangað til þarf að eiga sér stað rækileg hugarfarsbreyting og algjör stakkaskipti innan vallar. Það sem boðið var upp í kvöld af íslenska landsliðinu er ekki boðlegt þegar í hlut eiga atvinnumenn í íþróttinni.

Ekki eina ástæðan

Vissulega var Tomas Mrkva frábær í marki Tékka en stórleikur hans var ekki eina ástæðan fyrir tapinu sem var einfaldlega virkilega vont.


Ágúst Þór Jóhannsson og Gunnar Magnússon sem hlupu í skarðið við brottför Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í síðasta mánuði eru svo sannarlega ekki öfundsverðir af hlutverkum sínum eftir leik kvöldsins. Vissulega var varnarleikurinn mjög góður og markvarslan einnig afar góð hjá Björgvini Páli Gústavssyni en það sem vonast var til að yrðu minna vandamál varð að stóra vandamálinu, þ.e. sóknarleikurinn. Þegar lið fær á sig 22 mörk í alþjóðlegum handknattleik í dag á það að vera í dauðafæri til að vinna leikinn.

Viðvörunarljósin blikkuðu strax

Viðvörunarljósin blikkuðu strax í upphafi eftir að Tékkar skoruðu sex mörk í röð og náðu fjögurra marka forskoti. Aðeins hýrnaði yfir leik íslenska liðsins undir lok fyrri hálfleiks og staðan var jöfn, 10:10, rétt fyrir hálfleik. Á þeim kafla vonaðist maður til að íslenska liðið væri að komast inn á sporið. Sú varð ekki raunin því raunirnar tóku við í síðari hálfleik. Íslenska liðið skoraði aðeins tvö mörk á fyrstu 14 mínútunum og staðan 19:12. Það sem eftir var leiksins fór í að klóra í bakkann.


Mörk Íslands: Viggó Kristjánsson 7, Bjarki Már Elísson 4, Óðinn Þór Ríkharðsson 1, Janus Daði Smárason 1, Aron Pálmarsson 1, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1, Arnar Freyr Arnarsson 1, Sigvaldi Björn Guðjónsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 13, 37,1%.
Mörk Tékklands: Stanislav Kasparek 4, Vit Reichl 4, Matej Klima 4, Jakub Hrstka 3, Jakub Sterba 3, Tomas Piroch 2, Vojtech Patzel 1, Dominik Solak 1.
Varin skot: Tomas Mrkva 14, 45,1%.

Matija Gubica og Boris Milosevic frá Króatíu dæmdu leikinn.

Handbolti.is er í Brno og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -