Handknattleikskonurnar Andrea Jacobsen, Díana Dögg Magnúsdóttir, Berta Rut Harðardóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir komust áfram í aðra umferð í Evrópukeppni félagsliða í handknattleik í dag og í kvöld þegar síðari umferð 1. umferðar forkeppni Evrópudeildar og Evrópubikarkeppninnar voru leiknar.
Tap kom ekki að sök
Andrea skoraði þrjú mörk fyrir Blomberg-Lippe þegar liðið tapaði fyrir Rauðu stjörnunni í síðari viðureign liðanna í Belgrad, 28:26. Tapið kom ekki að sök vegna þess að Blomberg-Lippe vann heimaleikinn fyrir viku með 15 marka mun, 39:24. Díana Dögg skoraði ekki marki í leiknum í dag.
Þýskur slagur verður í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar með þegar Blomberg-Lippe og Tus Metzingen, bikarmeistarar síðasta tímabils, mætast. Fyrri leikurinn verður á heimavelli Blomberg sunnudaginn 10. nóvember. Síðari viðureignin verður annað hvort 16. eða 17. nóvember í Metzingen. Sandra Erlingsdóttir leikur með Metzingen.
Jóhanna og Berta skoruðu
Jóhanna Margrét skoraði fjögur mörk og Berta Rut tvö mörk í 10 marka sigri Kristianstad HK á hollenska liðinu Westfriesland SEW, 35:25, í Westfrieslandhal í Hollandi. Kristianstad HK vann heimaleikinn um síðustu helgi með níu marka mun, 32:23, og vann þar með viðureignirnar tvær með samanlagt 19 marka mun, 67:48.
Dregið verður í næstu umferð Evrópubikarkeppninnar á þriðjudagsmorgun. Íslensku liðin Valur og Haukar verða einnig á meðal liðanna sem dregið verður um en þau léku báðar viðureignir síðari í fyrstu umferð um síðustu helgi.