- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ísraelsmenn skipta um mann í brúnni fyrir Íslandsferð

Karlalandslið Ísraels hefur fengið nýjan þjálfara. Mynd/Handknattleikssamband Ísraels
- Auglýsing -

Ísraelska handknattleikssambandið hefur ákveðið að skipta um mann í brúnni á skútu karlalandsliðsins áður en að undankeppni Evrópumótsins hefst með leik við Íslendinga á Ásvöllum 12. október nk. Serbinn Dragan Djukic hefur tekið við þjálfun karlalandsliðsins af Oleg Boutenko sem látinn var taka pokann sinn eftir sex ára starf með liðið.


Djukic, sem stendur á sextugu, er enginn nýgræðingur í þjálfun. Segja má að Ísraelsmenn renni ekki alveg blint í sjóinn vegna þess að Djukic hefur áður stýrt karlalandsliði þeirra.


Dragan Djukic þjálfari karlalandsliðs Ísraels. Mynd/EPA


Djukic hefur víða komið við og var m.a. þjálfari ísraelska karlalandsins frá 2012 til 2015. Djukic fékk það erfiða verkefni að byggja upp breska karlalandsliðið fyrir Ólympíuleikana í Lundúnum 2012 og var við það ásamt öðrum störfum frá 2009. Síðast þjálfaði Djukic ungverska karlaliðið Tatabánya KC en hætti í sumar eftir eins árs starf.


Þegar litið er yfir þjálfaraferil Djukic á Wikipedia er óhætt að segja að hann hafi víða stungið við stafni síðan þjálfaraferillinn hófst hjá Zupa í Serbíu 1986. Auk fjölda félagsliða karla og kvenna og landsliða Bretlands og Ísrael má nefna landslið Sviss, Norður Makedóníu, Svartfjallalands og Jórdaníu auk starfa fyrir handknattleikssamband Georgíu.


Djukic er aðdáandi 3/2/1 varnarinnar eins og fleiri landar hans og nágrannar. Í hitteðfyrra gaf Djukic út bók þar sem sem 3/2/1 vörnin er krufin til mergjar.

handbolti.is nýtur ekki opin­bers rekstr­­ar­­stuðn­­ings.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -