- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ítrekað var hrópað að hún væri ógeð og kynni ekki að hlaupa

Karen Ösp Guðbjartsdóttir, markvörður ÍR. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Karen Ösp Guðbjartsdóttir, markvörður ÍR, sagði ófagra sögu í Bítunu á Bylgjunni í morgun af örfáum unglingspiltum í hópi stuðningsmanna Gróttu sem höfðu uppi niðrandi hróp í garð leikmanna ÍR-inga í umspilsleikjunum við Gróttu í undanúrslitum um sæti í Olísdeildinni á síðustu dögum. M.a. gerðu piltarnir hvað eftir annað athugasemd við útlit og vaxtarlag leikmanna ÍR-liðsins. Tólfunum kastaði í oddaleiknum á þriðjudagskvöld á heimavelli Gróttu.

„Ég fékk ítrekað að heyra nafnið mitt og þegar þeir náðu athygli minni þá kölluðu þeir, af hverju náðir þú ekki þessum bolta. Ef þú væri aðeins léttari, er ekki kominn tími til að létta sig svo þú náir þeim næsta,“ sagði Karen m.a. í viðtalinu í Bítinu.


Karen segir ennfremur að piltarnir hafi beint spjótum sínum að konu í ÍR-liðinu sem hafði tekið þátt í fegurðarsamkeppni. „Ítrekað var hrópað að henni að hún væri ógeð og kynni ekki að hlaupa.“ Að öðrum leikmanni liðsins var hrópað hvað eftir annað að hún liti út eins og gíraffi.


Karen segir að framkoma piltanna hafi algjörlega eyðilagt leikinn fyrir ÍR-liðinu því þeim hafi tekist að slá leikmenn liðsins út af laginu með framkomu sinni sem eigi ekkert skylt við að styðja lið sitt með háttvísi í huga eins og minnt er á fyrir hvern leik. Árásirnar hafi verið skipulagðar og piltarnir hafi verið nafnalista og farið inn á síður leikmanna á samfélagsmiðum og leitað að upplýsingum um þá.



Karen segir slæmt að ekki hafi verið gripið í taumana og talað yfir hausamótum piltanna. Þeir hafi fengið að halda sínu striki frá upphafi til enda leiksins. „Það er ekki okkar leikmannanna eða þjálfara okkar að ganga til þeirra í miðjum leik og stöðva þá,“ sagði Karen.


Karen segist hafa fengið mikil viðbrögð frá öðrum leikmönnum deildarinnar við færslu sinni á samfélagsmiðlum. Því miður virðist fleiri leikmenn gestaliða í Hertzhöllinni hafa orðið fyrir viðlíka árásum. Karen segir að þjálfari Gróttu hafi haft samband við sig og beðist afsökunnar fyrir hönd félagsins. Félagið sem slíkt hafi ekki beðið leikmenn ÍR afsökunar á framkomu piltanna né heldur hafi hún fregnað að við piltana hafi verið rætt.

„Ég vonast til að framkoma þeirra hafi afleiðingar,“ sagði Karen Ösp Guðbjartsdóttir en viðtalið í heild er hægt að hlusta á á vef Vísis.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -