Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Danmerkur í handknattleik karla kallaði í gær inn Andreas Magaard í stað Lukas Jørgensen sem sleit krossband í einum leikja Dana í riðlakeppni EM, eins og handbolti.is sagði frá.
Magaard er 27 ára gamall leikmaður HSV Hamburg í Þýskalandi og þar með samherji Einars Þorsteins Ólafssonar. Magaard hefur aldrei klæðst landsliðspeysunni.
Danir, sem hafa unnið síðustu fjögur heimsmeistaramót, mæta Frökkum í 1. umferð milliriðlakeppninnar í Jyske Bank Boxen í kvöld. Töluverð spenna er í danska hópnum fyrir leiknum við Frakka. Danska landsliðið tapaði fyrir Portúgal á þriðjudagskvöld og hefur þar með keppni í milliriðli án stiga. Það var fyrsta tap danska landsliðsins í Jyske Bank Boxen í 12 ár eða allt frá tapinu fyrir Frökkum í úrslitaleik EM 2014, 41:32.
Tapi Danir í kvöld dregur verulega úr möguleikum þeirra á sæti í undanúrslitum.
Viðureign Danmerkur og Frakklands hefst klukkan 19.30 og verður m.a. mögulegt að fylgjast með útsendingu á RÚV 2.


