- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Jacobsen stýrir danska landsliðinu til 2030

Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Dana í handknattleik. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Hinn sigursæli landsliðsþjálfari Dana, Nikolaj Jacobsen, hefur skrifað undir nýjan samning við danska handknattleikssambandið sem gildir til loka júní árið 2030.

Þetta var tilkynnt í gær áður en danska landsliðið vann stórsigur á Evrópumeisturum Svía, 37:31, Jyske Bank Boxen í Herning í síðustu umferð EHF-bikars landsliða. Danir unnu þar með keppnina og bættu þessum titli í veglegt safn sitt.

Einstakur árangur

Jacobsen verður 52 ára síðar á þessu ári. Hann tók við þjálfun danska landsliðsins fyrir sex árum af Guðmundi Þórði Guðmundssyni. Undir stjórn Jacobsen hefur danska landsliðið unnið það einstaka afrek að verða heimsmeistari þrisvar sinnum í röð, nokkuð sem engu landsliði hefur áður tekist í karlaflokki. Fyrir vikið er Jacobsen orðinn nánast dýrlingur í heimalandi sínu.

Áður en Jacobsen varð landsliðsþjálfari stýrði hann Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi með frábærum árangri en liðið varð m.a. þýskur meistari 2016 og 2017. Er það í eina skiptið til þessa sem Rhein-Neckar Löwen hefur unnið þýska meistaratitilinn. Svo vill til að Jacobsen var einnig eftirmaður Guðmundar Þórðar hjá þýska liðinu.

Gull á EM er eftir

Jacobsen á enn eftir að vinna Evrópumeistaramót landsliða. Á það er stefnt á EM á næsta ári. Fyrir löngu er byrjað að skipuleggja undirbúning danska landsliðsins fyrir mótið. Í morgun tilkynnti danska handknattleikssambandið að karlalandsliðið leiki þrjá vináttuleiki í Danmörku fyrir EM, gegn Noregi, Egyptalandi og Hollandi, 4., 6. og 7. janúar. Miðasala hefst á leikina 9. maí.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -