Janus Daði Smárason og félagar í Pick Szeged unnu afar mikilvægar sigur á meisturum Veszprém á heimavelli í ungversku 1. deildinni í handknattleik í gær, 28:24, og höfðu þar með sætasipti við Veszprém í efsta sæti deildarinnar. Sigurinn getur reynst dýrmætur þegar upp verður staðið í vor, ekki í síst í ljósi þess að Pick Szeged hafði tapað einum leik snemma á keppnistímabilinu.
Janus Daði skoraði tvö mörk fyrir Pick Szeged en Mario Sostaric var markahæstur með sjö mörk. Janus Daði stjórnaði leik heimaliðsins að vanda og fórst vel úr hendi.
Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Veszprém. Bjarki Már Elísson kom lítið við sögu. Frakkarnir Nedim Remili og Ludovig Fabregas voru markahæstir með átta og sjö mörk.
Nær uppselt var í Pick-Arena í Szeged enda um einn af úrslitaleikjum deildarinnar að ræða. Veszprém og Pick Szeged hafa skipst á að vinna ungverska meistaratitilinn alla þessa öld.
Eftir jafna stöðu að loknum fyrri hálfleik hafði Pick Szeged frumkvæðið lengst af í síðari hálfleik. Þremur mínútum fyrir leikslok átti Veszprém þess kost að jafna metin, 25:25.
Tækifærið gekk liðinu úr greipum. Roland Mikler lokaði marki Pick Szeged og félagar hans í sókninni, Janus Daði, Bence Bánhidi, Sebastian Frimmel og Sostaric fylgdu á eftir með fjórum mörkum í röð.
Stöðuna í ungversku 1. deildinni og í fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.