- Auglýsing -
- Auglýsing -

Janus Daði og félagar skelltu toppliðinu

Janus Daði Smárason á fullri ferð í leik með Göppingen á síðasta keppnistímabili. Mynd/Frisch auf Göppingen
- Auglýsing -

Janus Daði Smárason átti frábæran leik þegar Göppingen vann efsta lið þýsku 1. deildarinnar, Leipzig 25:22, á útivelli í kvöld þegar 5. umferð deildarinnar hófst. Þetta var fyrsta tap Leipzig á leiktíðinni.


Janus Daði skoraði fimm mörk í fimm tilraunum og var næst markahæsti leikmaður liðsins. M.a. innsiglaði hann sigur liðsins á síðustu mínútu. Þess utan þá átti Janus Daði nokkrar stoðsendingar á samherja sína. Göppingen var með yfirhöndina í leiknum nánast frá upphafi til enda. Í hálfleik var þriggja marka munur, 12:9, Göppingen í vil.

„Ég átti ágætan leik,“ sagði Janus Daði hæverskur við handbolta.is. „Við vorum á stundum miklir klaufar í sóknarleiknum í seinni hálfleik. Vörnin lagði grunn að þessum sigri. Hún var mjög massív.“

Arnór Þór innsiglaði stig


Bergischer gerði sitt fyrsta jafntefli á keppnistímabilinu í heimsókn til Hannover-Burgdorf, 30:30, þökk sér Arnóri Þór Gunnarssyni. Hann jafnaði metin úr vítakasti eftir að leiktíminn var út.

Bergischer HC var með fjögurra marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 17:13. Arnór Þór var næst markahæstur hjá Bergischer, skoraði sex mörk, þar af þrjú úr vítaköstum. Ragnar Jóhannsson kom lítið við sögu í liði Bergischer.

Bjarki heldur uppteknum hætti

Bjarki Már Elísson fór enn og aftur á kostum með Lemgo þegar liðið vann átta marka sigur á Essen, 31:23, á heimavelli. Bjarki Már skoraði sjö mörk í tíu tilraunum. Aðeins eitt marka sinna skoraði Bjarki Már úr vítakasti. Lemgo komst upp að hlið Leipzig og Bergischer HC með sigrinum. Hvert þeirra hefur sjö stig eftir fimm leiki.

Sárt tap heima hjá Oddi


Oddur Gretarsson og félagar í Balingen reka áfram lestina í deildinni án stiga ásamt nýliðum Coburg. Balingen tapaði í kvöld sínum fimmta leik í deildinni á leiktíðinni þegar Ludwigshafen kom í heimsókn, lokatölur 27:26. Jannek Klein skoraði sigurmark gestanna sjö sekúndum fyrir leikslok. Balingen var marki yfir í hálfleik, 14:13.


Oddur skoraði sex mörk og var næst markahæstur leikmanna Balingen. Oddur skoraði öll sín mörk úr vítaköstum.


Staðan, leikjafjöldi er innan sviga:
Leipzig 7(5), Bergischer 7(5), Lemgo 7(5), Kiel 6(4), SC Magdeburg 6(4), Wetzlar 6(4), Rhein-Neckar Löwen 6(4), Flensburg 6(4), Stuttgart 5(4), F. Berlin 5(4), Göppingen 5(4), Melsungen 5(4), Hannover-Burgdorf 5(5), Erlangen 3(4), Essen 2(4), Nordhorn 2(3), Ludwigshafen 2(5), Minden 1(4), Coburg 0(4), Balingen 0(5).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -