„Ég þekki Jóhannes Berg vel og tel komu hans verða ávinning bæði fyrir Holstebro og hann sjálfan. Hann kemst þar með út í stærri deild og takast á við nýja áskorun,“ segir Arnór Atlason þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins sem hefur samið við Jóhannes Berg Andrason leikmann FH fyrir næsta keppnistímabil, eins og kom fram í fréttum á föstudaginn.
Jóhannes Berg, sem hefur verið einn besti leikmaður Olísdeildarinnar í vetur, á að fylla skarð leikmanns Holstebro sem verður seldur í sumar til þýska liðsins Rhein-Neckar Löwen.
„Ég er mjög ánægður með að hafa fengið Jóhannes Berg í okkar hóp. Hann er góður varnar- jafnt sem sóknarlega. Góð skytta og einnig í samspilinu. Hann hefur sýnt í vetur að hann er tilbúinn að taka næsta skref þótt svo sannarlega verði það áskorun fyrir hann að takast á við keppni í sterkari deild.
Danska deildin er mjög sterk. Ég hef fulla trú á að honum eigi eftir að takast vel til,“ segir Arnór sem mun stokka talsvert upp úr leikmannahópi TTH Holstebro í sumar.
Arnór tók við þjálfun TTH Holstebro sumarið 2023. Hann segir dönsku úrvalsdeildina vera mjög skemmtilega og spennandi. Liðið hafi þegar náð fleiri stigum en í fyrra en sé ennþá nokkuð frá sæti í átta liða úrslitakeppninni.
Lengra viðtal við Arnór er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Sjá einnig: Jóhannes Berg flytur til Arnórs á Jótlandi í sumar
Staðan í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik: