- Auglýsing -
- Auglýsing -

Jóhannes Berg skoraði sigurmark FH-inga – stórsigur Hauka

Símon Michael Guðjónsson að skora eitt tíu marka sinn fyrir FH gegn ÍBV í kvöld. Daniel Vieira og Sigtryggur Daði Rúnarsson fylgjast ráðalausir með. Petar Jokanovic markvörður ÍBV fékk heldur ekki rönd við reist. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Íslandsmeistarar FH skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og tryggðu sér sigur á ÍBV í fyrsta leik Hafnarfjarðarmótsins í handknattleik karla á Ásvöllum í kvöld, 33:32. Jóhannes Berg Andrason átti síðasta mark viðureignarinnar sem reyndist ríða baggamuninn fyrir FH-inga, 45 sekúndum áður en leiktíminn var á enda.

ÍBV átti síðustu sókn leiksins en þrátt fyrir að hafa lagt á ráðin 20 sekúndum fyrir leikslok þá lánaðist leikmönnum liðsins ekki að færa sér sóknina í nyt.

FH var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:16. Allan síðari hálfleik var leikurinn í járnum. Liðin skiptust á vera marki yfir eða í besta falli munaði tveimur mörkum.
Símon Michael Guðjónsson var stuði í leiknum. Hann var atkvæðamestur FH-ingar með 10 mörk. Jóhannes Berg var næstur með átta mörk.

Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði átta mörk fyrir ÍBV og átti einnig margar stoðsendingar sem skiluðu ávöxtum. ÍBV stillti upp sterkara liði í kvöld en í gær gegn Víkingi á Ragnarsmótinu.

Tíu marka sigur Hauka

Haukar unnu stórsigur á Stjörnunni í síðari leik kvöldsins á Hafnarfjarðarmótinu, 39:29. Þeir voru með yfirhöndina frá upphafi til enda. Framan af var munurinn ekki mikill en á rúmlega 10 mínútna kafla upp úr miðjum fyrri hálfleik juku Haukar forystu sína úr 12:10 í 19:11. Stjarnan koma til baka á síðustu mínútum fyrri hálfleiks með fjórum mörkum í röð þrátt fyrir að vera færri í rúmar tvær mínútum eftir að Pétur Árni Hauksson fékk rautt spjald með tveggja mínútna viðbót fyrir að malda í móinn við Gunnar Óla Gústafsson og Bjarka Bóasson dómara.

Fjögurra marka munur var á liðunum í hálfleik, 19:15. Fljótlega í síðari hálfleik höfðu leikmenn Hauka náð sex marka forskoti, 23:17. Segja má að Stjarnan hafi aldrei ógnað að ráði eftir það. Undir lokin kom los á leikinn og heimamenn nýttu tækifærið og bættu við forystu sína.

Haukar – Stjarnan 39:29 (19:15).
Mörk Hauka: Hergeir Grímsson 7, Þráinn Orri Jónsson 6, Andri Fannar Elísson 5, Birkir Snær Steinsson 5, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Össur Haraldsson 4, Sigurður Snær Sigurjónsson 3, Adam Haukur Baumruk 2, Jakob Aronsson 2, Egill Jónsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Karlsson 7, Vilius Rasimas 4.

Mörk Stjörnunnar: Sveinn Andri Sveinsson 7, Tandri Már Konráðsson 4, Ísak Logi Einarsson 3, Jón Ásgeir Eyjólfsson 3, Rytis Kazakevicius 3, Starri Friðriksson 2, Hans Jörgen Ólafsson 2, Daníel Karl Gunnarsson 1, Jóel Bernburg 1, Pétur Árni Hauksson 1, Sigurður Jónsson 1, Benedikt Marinó Herdísarson 1.
Varin skot: Daði Bergmann Gunnarsson 4, Sigurður Dan Óskarsson 2.

FH – ÍBV 33:32 (18:16).
Mörk FH: Símon Michael Guðjónsson 10, Jóhannes Berg Andrason 8, Þórir Ingi Þorsteinsson 6, Einar Örn Sindrason 4, Ásbjörn Friðriksson 3, Aron Pálmarsson 1, Jakob Martin Ásgeirsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 13.

Mörk ÍBV: Sigtryggur Daði Rúnarsson 8, Gabríel Martinez Róbertsson 6, Daniel Esteves Vieira 3, Dagur Arnarsson 3, Sveinn José Rivera 3, Kári Kristján Kristjánsson 3, Dánjal Ragnarsson 3 (vafalaust lék einhver undir dulnefninu Dánjal Ragnarsson), Róbert Sigurðarson 1, Breki Þór Óðinsson 1, Pavel Miskevich 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 11, Pavel Miskevich 4.

Næstu leikir:

Fimmtudagur 22. ágúst:
Haukar – ÍBV, kl. 18.
FH – Stjarnan, kl. 20.

[email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -