Jón Gunnlaugur Viggósson hefur ákveðið að taka sér frí frá þjálfun meistaraflokks karla hjá Víkingi á næsta keppnistímabili eftir fjögurra ára törn við þjálfun liðsins. Frá þessu er greint á Facebook-síðu Víkings í kvöld. Ekki kemur fram hver tekur við starfinu af Jón Gunnlaugi en það verður næsta verk stjórnar handknattleiksdeildar að leita að eftirmanni Jóns Gunnlaugs. Víkingur féll úr Olísdeildinni í vor.
„Jón Gunnlaugur hefur náð frábærum árangri með Víkingsliðið í þröngri stöðu með því að koma liðinu í tvígang upp í efstu deild og í bæði skiptin komið á óvart með góðum árangri gegn öllum spám þótt liðið hafi á lokametrunum í ár bitið í það súra epli að falla á ný eftir hetjulega baráttu. Víkingsliðið sem Jón Gunnlaugur hefur byggt upp hefur einkennst af mikilli baráttu og meiri gæðum en búist var við, framfarirnar augljósar og ekkert lið gat bókað sigur fyrirfram,“ segir í tilkynningu í kvöld.
Heldur áfram í Safamýri
Þótt Jón Gunnlaugur hætti þjálfun hjá Víkinunu þá yfirgefur hann ekki félagið því áfram verður hann rekstrarstjóri Víkings í Safamýrinni eins og undanfarin tvö ár eða síðan Víkingur tók við íþróttamannvirkjunum þegar Framarar færðu sig um set innan borgarmarkanna.