Nýliðar KA/Þórs eru áfram í efsta sæti Olísdeildar kvenna eftir baráttusigur í sveiflukenndum leik í Sethöllinni á Selfossi í kvöld, 27:25. Selfoss-liðið fór illa að ráði sínu á lokakaflanum er það skoraði ekki mark síðustu níu mínútur leiksins. KA/Þórsliðið nýtti sér það í botn til þess að tryggja sér sigurinn með fimm mörkum í röð, þar af tvö mörk á síðustu 17 sekúndunum.
KA/Þór hefur þar með sex stig eftir þrjá leiki á toppi Olísdeildar kvenna. Selfoss rekur sem fyrr lestina án stiga. Liðið heldur nú til Aþenu til leiks við AEK í Evrópubikarkeppninnni á laugardaginn.
KA/Þór var marki yfir í hálfleik, 16:15. Liðið byrjaði á skora fjögur fyrstu mörk í síðari hálfleik og komst í þægilega stöðu sem þó varði ekki lengi. Selfossliðinu óx ásmegin með góðum varnarleik og lipurlegri markvörslu Ágústu Tönju Jóhannsdóttur. Tíu mínútur fyrir leikslok var Selfoss þremur mörkum yfir, 24:21. Eftir það hrökk sóknarleikur liðsins í baklás. Arna Kristín Einarsdóttir skoraði mark eftir hraðaupphlaup, 25:22, þegar níu mínútur voru til leiksloka. Eftir það má segja að sögulok hafi orðið á sóknarleik Selfoss.
Mörk Selfoss: Hulda Dís Þrastardóttir 6/3, Eva Lind Tyrfingsdóttir 6, Arna Kristín Einarsdóttir 5, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir 4, Mia Kristin Syverud 2, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 1, Hulda Hrönn Bragadóttir 1.
Varin skot: Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 9, 25%.
Mörk KA/Þórs: Susanne Denise Pettersen 5, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 4, Anna Þyrí Halldórsdóttir 4, Trude Blestrud Hakonsen 4, Tinna Valgerður Gísladóttir 3/3, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 2, Unnur Ómarsdóttir 1, Anna Petrovics 1, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1, Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir 1, Rakel Sara Elvarsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 11/1, 30,6%.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.