- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

KA/Þór mætir Val eftir háspennuleik

Leikmenn KA/Þórs og ÍBV mætast í upphafsumferð Olísdeildar kvenna í haust. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

KA/Þór leikur til úrslita við Val um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna eftir að hafa unnið ÍBV í framlengdum háspennu oddaleik í KA-heimilinu í dag, 28:27. Deildarmeistarar KA/Þórs mæta Valsliðinu í úrslitum Olísdeildarinnar og verður fyrsta viðureign liðanna í KA-heimilinu á miðvikudagskvöld.

Þetta er í fyrsta sinn sem KA/Þór eða nokkurt annað kvennalið frá Akureyri leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna.

Annan leikinn í röð var Rakel Sara Elvarsdóttir örlagavaldur í leiknum. Hún skoraði sigurmark KA/Þórs hálfri mínútu fyrir leikslok er hún fór inn í hægra horninu og skoraði 28. markið. Eyjaliðið hóf sókn en tókst ekki að skora jöfnunarmarkið þótt litlu mætti muna.

KA var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12:10. Lengi framan af síðari hálfleik var KA/Þór með tveggja marka forskot en gekk illa að bæta við. Þvert á móti þá komst ÍBV aftur inn í leikinn og jafnaði metin, 19:19. Harpa Valey Gylfadóttir kom ÍBV yfir, 21:20, þegar níu mínútur voru eftir. Sólveig Lára Kristjánsdóttir skoraði eftir hraðaupphlaup fjórum mínútum fyrir leikslok, 24:23, fyrir KA/Þór. Í blálokin þá átti Ásta Björt Júlíusdóttir, leikmaður ÍBV, skot í slá og út eftir að leiktíminn var úti í stöðunni 25:25.

Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma, 25:25, og 26:26, eftir fyrri hluta framlengingarinnar.

Leikmenn KA/Þór fagna þegar flautað var til leiksloka og skot Hrafnhildar Hönnu Þrastardótttur, leikmanns ÍBV, beint úr aukakasti hafði farið yfir markið. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net.

Leikurinn í KA-heimilinu var mikil skemmtun og stemningin hreint út sagt mögnuð. Vart mátti á milli liðanna sjá en eins og þegar leikið er upp á allt og ekkert verður annað liðið að bíta í súra eplið að lokum. Í dag kom það í hlut liðs ÍBV sem hefur leikið afar vel í úrslitakeppninni auk þess að hafa yfir að ráða frábærum stuðningsmönnum sem fjölmenntu með liðinu til Akureyrar. E.t.v. vantaði meiri breidd í leikmannahóp ÍBV til þess að liðið færi alla leið en lykilmenn liðsins og landsliðskonur, Birna Berg Haraldsdóttir og Sunna Jónsdóttir eru meiddar. Það hefði munað gríðarlega að hafa þær báðar heilar heilsu.

KA/Þórsliðið er skemmtilegt. Eins og Eyjaliðið þá gefst það aldrei upp.  Seiglan er mikil og breiddin í leikmannahópnum nýtist vel. Nú er að sjá hvort þessi kostir dugi á móti Val.

Leikurinn var ekkert sérlega vel leikinn. Spennan var mikil meðal leikmanna enda var mikið í húfi. Kom það niður á sóknarleiknum.

Markverðir beggja liða voru í aðalhlutverki, Matea Lonac hjá KA og Marta Wawrzykowska hjá ÍBV. Báðar vörðu þær vel á anna tug skota, jafnt úr opnum færum sem og langskot.

Mörk KA/Þórs: Rakel Sara Elvarsdóttir 6, Ásdís Guðmundsdóttir 5/2, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 4, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 3, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 17, 39,5%.
Mörk ÍBV: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 10, Ásta Björt Júlíusdóttir 5/4, Elísa Elíasdóttir 5, Harpa Valey Gylfadóttir 3, Karolina Loszowa 2, Lina Cardell 1, Birna Berg Haraldsdóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 14/2, 33,3%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -