- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

Kærkomið var að anda að sér nýju súrefni

- Auglýsing -

„Þetta hefur verið fínt verkefni þrátt fyrir svekkelsi hér og þar. Við lítum bara til þeirra framfara sem hópurinn hefur tekið og erum staðráðnar í stíga fleiri framfaraskref áður en þátttöku okkar lýkur,“ segir Thea Imani Sturludóttir landsliðskona og markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins í leiknum við Spán í gær. Handbolti.is hitti Theu Imani á hóteli landsliðsins eftir miðjan dag. Hún leikur sinn 98. landsleik annað kvöld er leikreyndust leikmanna landsliðsins á HM 2025.

Dagurinn brotinn upp

Landsliðshópurinn var þá nýlega kominn til baka eftir að hafa skroppið í miðborg Dortmund, brotið upp daginn, áður en síðasti leikurinn verður gegn Færeyingum annað kvöld í Westfalenhallen.

Thea Imani að skora eitt sjö marka sinn gegn Spáni. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Thea Imani, sem er 28 ára, er að taka þátt í sínu þriðja stórmóti með landsliðinu. Hún segir það geta tekið á að vera bundin við leiki og hótellíf í tvær til þrjár vikur.

„Tíminn hefur flogið frá okkur í þessari ferð, finnst mér. Við vorum ekkert alltof lengi saman fyrir mótið, það er í langri ferð fyrir stórmót eins og í fyrra og hitteðfyrra. Aðeins er einn dagur á milli leikja eftir að mótið hófst svo það er stanslaust prógramm alla daga og margt um að hugsa,“ segir Thea og bætir við að e.t.v. sé upplifunin önnur fyrir sig en þær sem eru að fara í fyrsta sinn í gegnum þá dagskrá sem fylgir stórmótum.

Það var næs að brjóta aðeins upp dagskrána, fá nýtt súrefni og borða aðeins öðruvísi mat eftir að hafa verið nánast á sama mat dag eftir dag í nærri tvær vikur

Var allt svo nýtt

„Ég man þegar ég fór fyrst á stórmót fyrir tveimur árum þá var allt svo nýtt og maður vissi ekki nákvæmlega hvað maður var að fara út í. Núna þekki ég þetta betur. Komið er gott skipulag að því hvernig við búum okkur undir leikina og hvað þarf að gera á milli þeirra til að vera í sem bestu ásigkomulagi þegar á hólminn er komið.

Thea Imani var valin besti leikmaður viðureignar Íslands og Spánar í gær. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Þarf að hugsa vel um sig

Það er ekki oft sem maður er undir svona miklu álagi með leikjum annan hvern dag. Þess vegna þarf maður að hugsa enn betur um sig á milli viðureigna, nærast rétt og vel og hvílast. Einnig þarf að setja fljótlega punkt aftan við leikina þegar þeim er lokið. Ekki fagna of lengi né vera vonsvikinn um of langa stund. Síðan þarf maður að vera fljót að fletta yfir á næstu blaðsíðu,“ segir Thea Imani sem er ein þeirra sem stunda fjarvinnu meðan á mótinu stendur. Hún er starfsmaður kerfisdeildar Landsbankans.

Dagskráin brotin upp

Eins og áður segir þá fékk hópurinn tækifæri til þess að fara út fyrir veggi hótelsins í dag. Skroppið var í miðborg Dortmund, litið á jólamarkaðinn glæsilega, litið inn í verslanir og borðað á veitingastað sem var kærkomin tilbreyting frá hakki og spagetti á hótelinu og tilbreytingalitlu úthverfalífi á hóteli. Þétting byggðar er greinilega ekkert forgangsmál í þeim borgarhluta sem hótel landsliðsins er staðsett.

„Það var næs að brjóta aðeins upp dagskrána, fá nýtt súrefni og borða aðeins öðruvísi mat eftir að hafa verið nánast á sama mat dag eftir dag í nærri tvær vikur. Bæjarferðin hressti aðeins upp á mannskapinn,“ segir Thea Imani Sturludóttir landsliðskona sposk á svip.

Myndasyrpa: Ísland – Spánn

HM kvenna ”25 – dagskrá, milliriðlar, úrslit, staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -