- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kaflaskiptir Hauka – Framarar sjálfum sér verstir

Aron Kristjánsson hættir þjálfun Hauka í lok leiktíðar. Mynd/Björgvin Franz
- Auglýsing -

Haukar lögðu Framara í kaflaskiptum leik í 1. umferð Olísdeildar karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld, 29:27, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11. Haukar voru lengi með fjögurra marka forskot í síðari hálfleik og virtust hafa öll ráð í hendi gegn baráttuglöðum leikmönnum Fram sem voru á tíðum sjálfum sér verstir, eins og Einar Jónsson þjálfari þeirra sagði við handbolta.is eftir leikinn.

Refsa grimmilega

„Við vorum á stundum klaufar og áttum stundum möguleika á að skora einföld mörk eftir hraðaupphlaup en nýttum þá möguleika ekki. Eins töpuðum við boltanum oft á einfaldan hátt í þessum stöðum á sama tíma og leikmenn Hauka refsa okkur mjög grimmilega,“ sagði Einar m.a.

„Til viðbótar vorum við með tvær ólöglegar skiptingar. Allt svona er dýrt og ekki síst gegn jafn sterku liði og Haukar hafa á að skipa.

Margt jákvætt

Á köflum fannst mér við vera mjög flottir. Vörnin var mjög góð stóran hluta leiksins. Við vorum agaðir en samt ákveðnir í sóknarleiknum. Þar af leiðandi var margt jákvætt í þessu. Á hinn bóginn er svekkjandi að fá ekki stig vegna þess að tækifærin voru fyrir hendi,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram.

Byrjuðum illa

„Okkur vantaði ekki mikið upp á til þess að ná betri tökum á leiknum,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, ánægður með sigurinn og að mörgu leiti við frammistöðuna. Hann sagði upphafskaflana í fyrri og seinni hálfleik hafa verið erfiða en þegar á leikinn hafi liðið náð sér á skrið og náð töglum og högldum.

„Það var óþarfi að missa fjögurra marka forskot niður í tvö mörk rétt fyrir hálfleikinn,“ sagði Aron og bætti við að góður varnarleikur og markvarsla hafi stutt vel við liðið á upphafskafla síðari hálfleiks þegar illa gekk í sókninni.

„Eftir tíu mínútur í síðari hálfleik þá náðum við góðum tökum á leiknum aftur. Vörnin var áfram öflug en við bættist að sóknarleikurinn gekk betur. Það var flott flæði í honum, hröð upphlaup. Á þessum kafla lögðum við grunn að sigrinum.


Ég er ánægður með stigin tvö í fyrsta leik, ekki síst gegn Fram-liðinu sem við vissum að myndi selja sig dýrt,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, í samtali við handbolta.is eftir leikinn í Schenkerhöllinni í kvöld.

Fór á kostum

Ólafur Ægir Ólafsson lék afar vel með Haukum í kvöld. Hann skoraði 10 mörk í 14 skotum og reyndist Framvörninni afar erfiður.


Svipaða sögu er að segja um Vilhelm Poulsen leikmanna Fram. Hann skoraði 10 mörk í tveimur rispum. Hann byrjaði með látum og skoraði fjögur mörk á stuttum kafla en hvarf svo áður en hann reis aftur upp á afturlappirnar á lokakaflanum og skoraði m.a. fimm mörk í röð. Breki Dagsson skoraði tvö mörk í átta skotum en átti sjö sköpuð færi. Nokkuð dró af honum þegar á leið leikinn.


Mörk Hauka: Ólafur Ægir Ólafsson 10, Stefán Rafn Sigurmannsson 6/3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 4, Atli Már Báruson 3, Darri Aronsson 2, Geir Guðmundsson 1, Jakob Aronsson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1, Þráinn Orri Jónsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 12, 31,6%.
Mörk Fram: Vilhelm Poulsen 10, Stefán Darri Þórsson 5, Kristófer Dagur Sigurðsso 4/4, Breki Dagsson 2, Rógvi Dal Christiansen 2, Þorvaldur Tryggvason 2, Kristófer Andri Daðason 1, Ólafur Jóhann Magnússon 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 9, 23,7%.


Öll tölfræði leiksins er á HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -