„Mér fannst við vera með nægan kraft allan leikinn en því miður þá voru síðustu 10 mínúturnar svolítið stöngin út hjá okkur. Kannski misstum við aðeins einbeitinguna. Til dæmis áttum við tvö stangarskot í jafnri stöðu og Valur svaraði með tveimur hraðaupphlaupum og tveimur mörkum. Það má segja að það hafi ráðið úrslitum því það er erfitt að missa Val framúr í jöfnum leik,“ sagði Lena Margrét Valdimarsdóttir leikmaður Fram í samtali við handbolta.is eftir fimm marka tap Fram fyrir Val, 26:21, í 8. umferð Olísdeildar kvenna í kvöld í Úlfarsárdal.
„Mér fannst við koma vel inn í leikinn og leggja okkur fram allan tímann en því miður þá varð stuttur kafli á síðustu mínútunum okkur að falli. Við misstum aðeins hausinn og vorum komnar fjórum undir skömmu síðar. Það er erfið staða að vera í gegn Val þegar lítið er eftir,“ sagði Lena Margrét og bætti við.
Framfaraskref þrátt fyrir tap
„Ég var mjög sátt við vörnina hjá okkur í dag og hvernig við lékum lengst af. Miðað við síðustu leiki þá var tekið framfaraskref í dag þótt það hafi ekki skilað stigum. Við vorum staðráðnar í að taka okkur taki eftir það sem a undan er gengið. Ég er ánægð með skref fram á við og bíð spennt eftir tveimur síðustu leikjunum sem við eigum eftir fyrir HM-hléið,“ sagði Lena Margrét Valdimarsdóttir leikmaður Fram sem skoraði fimm mörk í leiknum í kvöld.