Kári Kristján Kristjánsson leikmaður ÍBV hefur verið úrskurðaður í tveggja leikja keppnisbann hjá aganefnd HSÍ vegna leikbrots í viðureign Hauka og ÍBV í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins í handknattleik karla. Frá þessu segir í úrskurði aganefndar sem birtur var í morgun á vef HSÍ en aganefnd kom sérstaklega saman í gær vegna málsins eftir að greinargerð barst frá ÍBV.
„Greinargerð barst frá ÍBV. Hefur aganefnd farið yfir sjónarmið félagsins og framlögð myndbönd.
-Með vísan til þess að um var að ræða illkvittna aðgerð gegn óviðbúnum mótherja í skilningi reglu 8:6 b), er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í tveggja leikja bann,“ segir í niðurstöðu aganefndar.
Missir af leikjum við HK og Val
Brot Kára Kristjáns fór framhjá dómurum leiksins en erindi barst aganefnd vegna atviksins frá framkvæmdastjóra HSÍ.
Kári Kristján tekur út leikbann þegar ÍBV sækir HK heim annað kvöld og tekur á móti Val í Vestmannaeyjum 30. nóvember.
Sjá einnig: Fjórir sleppa við bann en meint brot Kára er til skoðunar