- Auglýsing -
Kári Garðarsson er hættur þjálfun kvennaliðs Gróttu. Hann staðfesti það við handbolta.is í dag. Kári stýrði sínum síðasta leik gegn HK í undanúrslitum Olísdeildar á dögunum. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hver tekur við af Kára.
„Þetta er komið gott. Mér reiknast til að þetta tímabil sem var að enda hafi verið mitt tíunda tímabil með meistaraflokk kvenna hjá Gróttu,“ sagði Kári sem var þjálfari Gróttu þegar hún varð Íslandsmeistari 2015 og 2016 auk þess að vinna bikarkeppnina 2015 og verða deildarmeistari saman ár. Undir stjórn Kára vann Grótta fyrstu Íslandsmeistaratitla sína í handknattleik í meistaraflokki.
Kári tók sér frí frá þjálfun kvennaliðs Gróttu 2017 en mætti til leiks aftur þremur árum síðar sem aðalþjálfari liðsins. Í millitíðinni var Kári þjálfari karlaliðs Fjölnis og kom liðinu m.a. í undanúrslit bikarkeppninnar vorið 2019 þar sem liðið var hársbreidd frá sæti í úrslitaleiknum.
Undanfarin ár hefur Kári verið framkvæmdastjóri Gróttu samhliða þjálfuninni. Sagðist hann aðspurður ekki búast við öðru en halda áfram sínu aðalstarfi þótt hann rifi seglin í þjálfuninni, alltént um stundarsakir.
- Auglýsing -