Karlalandsliðið í handknattleik nýtur sem fyrr mikillar hylli á meðal landsmanna og dregur mjög marga þeirra að sjónvarpstækjum sínum þegar það tekur þátt í stórmótum. Samkvæmt frétt RÚV þá var viðureign Íslands og Rússlands á EM karla í handknattleik snemma á þessu ári sú íþróttaútsending sem flestir Íslendingar horfðu á, á árinu. Alls var meðaláhorf á leikinn 44,8% og uppsafnað var það 62% samkvæmt tölum úr rafrænum ljósvakamælingum Gallup.
Leikir karlalandsliðsins eru í sex efstu sætum listans og eru í átta af ellefu efstu sætunum að þessu sinni. Teknir eru allir leikir sem sýndir voru á RÚV, RÚV 2, Stöð 2 og Stöð 2 Sport. Síminn og Viaplay eru hins vegar ekki inni í rafrænum ljósvakamælingum Gallup.
„Þá sem horfðu í a.m.k. fimm mínútur samfleytt. Til samanburðar við árið 2019 var sú íþróttaútsending sem flestir horfðu á handboltaleikur Íslands og Þýskalands á HM 19. janúar 2019. Þar mældist meðaláhorfið 47,6% og uppsafnaða áhorfið 62,6% eða aðeins meira en áhorfið á leik Íslands og Rússlands í ár,” segir í m.a. í frétt RÚV.
Viðureign Íslands og Ungverjalands á EM var með 43,2% meðaláhorf og 59% þegar litið er til uppsafnaðs áhorfs. Upphafsleikur Íslands á EM2020, gegn Danmökru fékk 41,2% meðaláhorf og 57 og hálft prósent þegar litið er til uppsafnaðs áhorfs.
Nánar er hægt að skoða tölurnar á vef RÚV.
Framundan er heimsmeistaramót í handknattleik karla í Egyptalandi í janúar.