Karlalandsliðið í handknattleik hefur lengi hrifið þjóðina með sér og svo virðist sem engin breyting hafi orðið á. RÚV segir frá því á vef sínum að fjórða árið í röð var leikur með karlalandsliðinu sú íþróttaútsending ársins sem flestir fylgdust með. Um er að ræða sigurleik Íslands á Frakklandi á Evrópumótinu í Búdapest 22. janúar, 29:21.
Meðaláhorf á leik Íslands og Frakklands mældist 45,8% og uppsafnað áhorf var 60,4%. Til samanburðar við árið 2021 var leikur Íslands og Portúgals í riðlakeppni HM í handbolta sú íþróttaútsending sem flestir horfðu á. Mældist meðaláhorfið 34,4% og uppsafnaða áhorfið 51,1%.
Næst vinsælasti leikur íslenska karlalandsliðsins í handknattleik karla á mótinu var viðureignin við Svartfellinga 26. janúar, 34:24. Meðal áhorf var 40,4% og uppsafnað 57,4%.
Leikir með íslenska karlalandsliðinu í handbolta raða sér í átta af tíu efstu sætum listans, segir ennfremur í tilkynningu á vef RÚV.
Framundan er heimsmeistaramót í handknattleik karla sem stendur yfir í Svíþjóð og Póllandi frá 11. janúar til 29. sama mánaðar. Fyrsta viðureign Íslands verður fimmtudaginn 12. janúar gegn Portúgal.