- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kemur ekki til greina að leika fyrir Danmörku

Óli Míttún í kjörstöðu í kappleik. Mynd/EHF
- Auglýsing -

„Það kemur ekki til greina. Ég er Færeyingur og vil leika fyrir mitt land,“ segir færeyska handknattleiksefnið Óli Mittún í samtali við TV2 í Danmörku spurður hvort hann hafi áhuga á að leika fyrir danska landsliðið og feta í fótspor Færeyingsins Jóhan á Plógv Hansen sem leikið hefur með danska landsliðinu síðustu árin. Hansen lék fjóra landsleiki fyrir Færeyjar áður en hann söðlaði um.


Mittún er 17 ára gamall og var valinn besti leikmaður Evrópumóts 18 ára landsliða sem lauk í Svartfjallalandi fyrir viku. Hann var einnig lang markahæsti leikmaður mótsins.


„Það væri rangt að leika fyrir Danmörku vegna þess að ég er Færeyingur,“ segir Mittún ennfremur og upplýsir að hann eigi sér þann draum að færeyska A-landsliðið leiki á stórmóti í næstu framtíð.


„Gæðin eru að verða betri í handknattleik í Færeyjum. Vonandi komumst við inn á EM 2024, ef ekki þá líða ekki mörg ár áður en við verðum með á stórmóti,“ segir Mittún í fyrrgreindu samtali við TV2 í Danmörku. Færeyingar eiga mjög efnileg U18 og U20 ára landslið sem höfnuðu í níunda og tíunda sæti á Evrópumótum sumarsins.


Mittún hefur vakið gríðarlega athygli. Hann var einnig í U20 ára landsliði Færeyja sem gerði það gott á EM í síðasta mánuði. Míttún er ekki eini færeyski handknattleiksmaðurinn sem fangað hefur athygli handknattleiksáhugafólks. Elías Ellefsen á Skipagøtu hefur einnig hrifið marga með leikni sinni og útsjónarsemi. Ellefsen stendur á tvítugu.


Þess má geta að Míttún og Ellefsen eru systkinabörn.


Undankeppni EM 2024 meðal A-landsliða hefst í október. Færeyska landsliðið verður með landsliðum Austurríki, Rúmeníu og Úkraínu í riðli og fara tvö efstu liðin áfram á EM 2024 sem haldið verður í Þýskalandi eftir hálft annað ár. Einnig fara fjögur lið áfram af þeim sem ná bestum árangri af þeim sem hafna í þriðja sæti.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -