Keppni í pólsku úrvalsdeildinni í handknattleik karla hefur meira og minna legið niðri síðustu 10 daga vegna kórónuveirunnar. Einn og einn leikur á stangli hefur farið fram og óvíst er hvernær keppni hefst af krafti aftur. Eitthvað hefur verið meira um leik í B-deildinni og eins í úrvalsdeild kvenna.
Vive Kielce, sem Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson eru hjá, hefur aðeins leikið þrjá leiki í deildinni og unnið þá. Ekki er ljóst hvenær liðið leikur næst í deildinni. Hins vegar standa vonir til þess að heimaleikur við Meskhov Brest í Meistaradeild Evrópu fari fram á miðvikdagskvöld í Kielce. Þá verður liðnir 13 dagar frá því að Sigvaldi og samherjar í Kielce léku síðast keppninsleik en það var gegn Elverum í Noregi, fyrrverandi samherjum Sigvalda Björns.
„Ástandið er vel þreytt,“ sagði Sigvaldi Björn við handbolta.is í dag. „Það er bara mikið um smit og þess vegna fara svo fáir leikir fram,“ sagði Sigvaldi ennfremur og bætti við að hann þekkti ekki vel hvernig gengi að hamla útbreiðslu veirunnar í Póllandi, hvort það sé að síga á verri veginn eða horfði til þess betri.
Sigvaldi Björn sagðist að öðru leyti kunna vel við sig í Kielce og hjá félaginu sem hann gekk til liðs við í sumar. Hann leikur að jafnaði um helming leiktímans í hverjum leik á móti félaga sínum í stöðu hægri hornamanns.