- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kielce heldur út tímabilið – framtíðin ræðst í lok mars

Leikmenn Kielce fagna eftir að sæti í úrslitum Meistaradeildar var í höfn á síðasta vori. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Pólska stórliðið Łomża Industria Kielce staðfesti í gærkvöld að tekist hafi að tryggja rekstur þess út keppnistímabilið. Hvað tekur þá við er óvissu háð. Vonir standa til að fyrir lok mars verði framtíðin orðið skýrari og nýr eða nýir samstarfsaðilar komnir að borðinu.


Eins og handbolti.is sagði m.a. frá á milli jóla og nýárs steðjar fjárhagslegur vandi að rekstri Industria Kielce eftir að drykkjavöruframleiðandinn Van Pur dró sig út úr samstarfi fyrir áramót, hálfu ári fyrr en gert var ráð fyrir. Tekjur Kielce af samningnum við Van Pur stóðu undir ríflega þriðjungi útgjalda félagsins. Talant Dujshebaev þjálfari liðsins til níu ára sendi út neyðarkall vegna stöðunnar skömmu fyrir jólin.


Leitað hefur verið með logandi ljósi að nýjum samstarfsaðilum. Enn sem komið er hefur leitin ekki borið árangur. Einnig hefur verið leitað til yfirvalda í Kielce og stuðningsmanna.


Að óbreyttu ástandi virðist ljóst að margir leikmenn Kielce róa á önnur mið í vor. Eins og fram kom í frétt á handbolti.is í síðustu viku þá hefur ungverska meistaraliðið Pick Szeged borið víurnar í Dujshebaev-feðgana.

Fara Dujshebaev-feðgar á einu bretti til Szeged?


Einnig eru fimm leikmenn til viðbótar með tilboð upp á vasann frá félögum utan Póllands og skal engan undra enda er valinn maður í hverju rúmi hjá Kielce auk þess sem félagið hefur lánað nokkra leikmenn út til liða víða um Evrópu.

Kielce varð vann Meistaradeild Evrópu vorið 2016 og lék til úrslita við Barcelona á síðasta vori en tapaði eftir vítakeppni. Liðið hefur orðið pólskur meistari ellefu ári í röð en situr sem stendur í öðru sæti pólsku úrvalsdeildarinnar eftir tap fyrir Wisla Plock skömmu fyrir áramótin.


Haukur Þrastarson er samningsbundinn Łomża Industria Kielce fram til ársins 2025. Haukur sleit krossband byrjun desember og verður frá keppni um langt skeið af þeim sökum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -