Óhætt er að segja að Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í BSV Sachsen Zwickau hafi tekið annan af tveimur keppinautum sínum um efsta sæti í þýsku 2. deildinni, SG H2 KU Herrenberg, í ærlega kennslustund í kvöld í uppgjöri liðanna á heimavelli Herrenberg, 37:22.
Díana og samherjar gerðu út um leikinn í fyrri hálfleik. Leikmenn Herrenberg sem voru í þriðja sæti, aðeins stigi á eftir BSV Sachsen Zwickau, vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar þeir gengu til búningsherbergis að loknum fyrri hálfleik 13 mörkum undir, 20:7.
Segja má að allt hafi gengið upp hjá BSV Sachsen Zwickau í leiknum eins og tölurnar gefa til kynna. Liðið heldur efsta sæti deildarinnar, er með 33 stig eftir 19 leiki. Füchse Berlin, sem vann Kirchof, 24:14, hefur einnig 33 stig en hefur lokið 20 leikjum auk þess að hafa lakara vinningshlutfall í innbyrðisleikjum við BSV Sachsen Zwickau. Herrenberg er með 30 stig að loknum 19 leikjum. Þessi þrjú lið berjast um efsta sætið sem gefur sæti í 1. deild á næsta keppnistímabili. Liðið sem hafnar í öðru sæti þegar upp verður staðið fer í umspil gegn liði úr 1. deild og keppnisrétt í efstu deild á næstu leiktíð.
„Við komum rosalega einbeittar til leiks eftir góða æfingaviku. Mér fannst við hreinlega bara ná að keyra verulega yfir þær með einföldu spili. Boltinn flaut vel á milli okkar og við leyfðum þeim ekki að brjóta upp spilið,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is í kvöld.
Díana Dögg skoraði þrjú mörk í jafnmörgum tilraunum í leiknum við Herrenberg og átti auk þess tvær stoðsendingar. Hún var einnig aðsópsmikil í vörninni að vanda. Markvörður BSV Sachsen Zwickau, Ela Szott, fór á kostum. Hún var með 48% hlutfallsmarkvörslu í þær 47 mínútur sem hún varði mark liðsins. Charley Senner, sem leysti Szott af á lokakaflanum var ekki síðri.
BSV Sachsen Zwickau á enn sjö leiki eftir í deildinni.