- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU21: Klassískur úrslitaleikur með jöfnum möguleikum

Róbert Gunnarsson er þjálfari bronslið Íslands á samt Einari Andra. Mynd/IHF/Sasa Pahic Szabo / kolektiff
- Auglýsing -

„Við höfum verið með sömu gömlu uppskriftina fram til þessa í mótinu, einn leikur í einu. Hún hefur skilað okkur inn í undanúrslit enda hafa strákarnir verið hrikalega flottir,“ sagði Róbert Gunnarsson annar þjálfara U21 árs landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í Berlín. Framundan er undanúrslitaleikur hjá íslenska landsliðinu á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða í dag gegn Ungverjum. Flautað verður til leiks klukkan 13.30.

Íslenska landsliðið sem vann Portúgal í átta liða úrslitum HM í Berlín í fyrradag. Mynd/IHF/Sasa Pahic Szabo / kolektiff

„Þegar komið er í undanúrslit á heimsmeistaramótinu þá er bara um erfiða leiki að ræða. Það á jafnt við um Ungverja og okkur. Framundan er ekkert annað en klassískur úrslitaleikur þar sem möguleikar liðanna eru jafnir,“ sagði Róbert að lokinni æfingu íslenska liðsins í hliðarsal keppnishallarinnar í gær.

„Við mætum fullir sjálfstrausts eftir að hafa unnið allar sex viðureignir okkar í mótinu. Ef við náum að leika okkar besta leik þá hef ég ekki stórar áhyggjur. Staðan á hópnum okkar er góð. Hinsvegar er ekkert óeðlilegt að það komi upp smá stress í menn þegar kemur að stórleikjum. Það gerist hjá öllum liðum.“

Tilbúnir á ráslínu

Engu er líkara en ungversku og íslensku landsliðin sogist hvort að öðru þegar kemur að stórmótum. A-landsliðin hafa oft mæst á síðustu árum og fleiri leikir eru í farvatninu. Nú eru 21 árs landslið þjóðanna mætt á ráslínu, tilbúin í að berjast um sæti í úrslitaleik heimsmeistaramótsins.

„Við höfum mætt þeim nokkrum sinnum,“ sagði Róbert og glotti við tönn en vildi mest lítið gera í því sem virðist eilífðar baráttu þjóðanna á handknattleiksvellinum og vatt kvæði sínu í kross.

„Umgjörðin er mjög flott hér í Þýskalandi. Hún var það einnig í Aþenu. Við hlökkum bara til þess að fara í þá orrustu sem framundan er,“ sagði Róbert Gunnarsson annar þjálfara U 21 árs landsliðsins í handknattleik.

Fögnuður var mikill þegar flautað var til leiksloka gegn Portúgal. Ísland í undanúrslitum HM. Mynd/IHF/Sasa Pahic Szabo / kolektiff


Eins og áður er getið hefst undanúrslitaleikur Íslands og Ungverjalands klukkan 13.30 í dag. Handbolti.is verður í Max Schmeling Halle og verður með textalýsingu þaðan auk viðtala við leikmenn og þjálfara að leik loknum.

Sigurlið undanúrslitanna eigast við í úrslitaleik sem hefst klukkan 16 á morgun. Tapliðin bítast um bronsið í leik sem hefst klukkan 13.30. Allar tímasetninginar taka mið af klukkunni á Íslandi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -