Norska meistaraliðið Kolstad er komið í undanúrslit norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla eftir annan stórsigur á Halden í dag, 40:23. Að þessu sinni var leikið í Halden Arena. Kolstad vann fyrri viðureignina með 14 marka mun, 33:19.
Fimm Íslendingar komu við sögu hjá Kolstad í leiknum. Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk, Arnór Snær Óskarsson tvö og Benedikt Gunnar Óskarsson og Sveinn Jóhannsson skoruðu eitt mark hvor.
Sigvaldi og Arnór áttu tvær stoðsendingar hvor og Benedikt Gunnar eina.
Sigurjón Guðmundsson stóð um skeið í marki Kolstad en varði ekkert af þeim sjö skotum sem hann fékk á sig.
Ekki er ljóst hver verður andstæðingur Kolstad í undanúrslitum vegna þess að aðeins einum leik er lokið í hinum rimmunum þremur í átta liða úrslitum.