Norska meistaraliðið Kolstad tapaði í gær fyrir Elverum í toppslag norsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla, 30:28. Ekki dugði minna en sjálf Håkons hall í Lillehammer fyrir viðburðinn enda lögðu tæplega 5.400 áhorfendur leið sína á leikinn og skemmtu flestir sér vel enda nær flestir á bandi Elverum. Håkons hall er glæsilegt íþróttamannvirki sem reist var fyrir Vetrarólympíuleikana sem fram fóru í Lillehammer fyrir 30 árum.
Elverum er efst í deildinni eftir sigurinn í gær með 12 stig að loknum sex leikjum. Kolstad hefur 10 stig. Kolstad tapar ekki leik á hverjum degi í norsku úrvalsdeildinni. Á síðustu leiktíð tapað liði einu sinni og gerði eitt jafntefli en vann aðra leiki í deildinni. Keppnistímabilið þar á undan vann það alla sína leiki.
Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik í Håkons hall, 15:15.
Fjórir Íslendingar
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði fjögur mörk fyrir Kolstad. Sigvaldi Björn Guðjónsson fyrirliði skoraði tvisvar og var einu sinni vikið af leikvelli. Sveinn Jóhannsson var í leikmannahópi Kolstad. Sigurjón Guðmundsson kom aðeins við sögu. Hann varði þrjú skot af sjö á þeim tíma sem hann stóð í marki Kolstad.
Simen Ulstad Lyse var markahæstur hjá meisturunum með 13 mörk, ekkert úr vítakasti.
Patrick Helland Anderson skoraði flest mörk leikmanna Elverum, sex. Kasper Thorsen Lien var næstur með fimm mörk.
Stöðuna í norsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.