Örvhenta skyttan Birkir Benediktsson hefur snúið heim til Íslands eftir eins árs útgerð hjá japanska liðinu Wakunaga. Birkir staðfesti heimkomu sína við Handkastið í vikunni en Handkastið kom fram á ritvöllinn á dögunum með vefsíðu og hefur farið mikinn eins og ritstjórans er von og vísa.
Óvíst er hvort Birkir tekur upp þráðinn á handknattleiksvellinum hér heima eftir Japansveruna. Handbolti.is veit til þess að hið minnsta hafi forráðamenn HK og Aftureldingar haft samband við Birki í vor en ekki haft erindi sem erfiði. Sjálfsagt hafa fleiri lið falast eftir kröftum Birkis.
Birkir lék með Aftureldingu upp yngri flokka og upp í meistaraflokk en fór frá félaginu fyrir ári til að reyna fyrir sér hjá Wakunaga. Hann var árum saman einn burðarása Aftureldingar en því miður settu erfið meiðsli talsvert strik í reikninginn um nokkurra ára skeið, m.a.hásinarslit.
Wakunaga hafnaði í 9. sæti í 14 liða úrvalsdeild karla í Japan á síðasta vetri.