- Auglýsing -
- Auglýsing -

Köstuðum leiknum frá okkur

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, og leikmenn hans eru lagðir af stað landsleiðina frá Akureyri. Ekkert varð af flugi. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Auðvitað munar um nokkra leikmenn en það er ekki afsökun fyrir þeirri frammistöðu sem við sýndum að þessu sinni, meðal annars í fyrri hálfleik. Við erum KA/Þór og með góðan hóp leikmanna þótt nokkrar hafi vantað að þessu sinni,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs í samtali við handbolta.is í gær eftir að lið hans steinlá fyrir Haukum, 34:27, í Olísdeild kvenna á Ásvöllum.

Töpuðu boltanum ellefu sinnum

„Við töpuðum boltanum ellefu sinnum í fyrri hálfleik sem má ekki gerast gegn jafn góðu liði og Haukar eru. Við hreinlega köstuðum leiknum frá okkur á þeim kafla leiksins og vorum átta mörkum undir í hálfleik eftir að hafa verið mest tíu mörkum undir,“ sagði Andri Snær sem sagðist ekki átta sig almennilega af hverju botninn datt svona illilega úr leik liðsins.

Upphafskaflinn var góður þar sem KA/Þór skoraði þrjú fyrstu mörkin og fjögur af fyrstu fimm. Eftir það umpólaðist leikur liðsins.

Sjálfstraustið hvarf

„Um leið og illa fór að ganga hrundi sjálfstraustið og agaleysi gerði vart við sig. Mikið var um slakar línusendingar sem rötuðu ekki réttar hendur. Fyrir vikið var okkur refsað. Okkur tókst aldrei að ná takti í leiknum. Þegar kom fram í síðari hálfleik var erfitt að snúa við taflinu og vinna upp forskotið sem Haukar voru með,“ sagði Andri Snær. Mestur varð munurinn 12 mörk, 26:14, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður.

Kærkomið hlé

Andri Snær sagði að framundan væri kærkomið hlé frá kappleikjum eftir mikið álag síðustu mánuði, í deildarkeppninni, bikarkeppninni auk fjögurra leikja í Evrópukeppni með tilheyrandi ferðalögum til Kósovó og Spánar. Næsti leikur KA/Þórs verður 8. janúar.

Skemmtilegt en tók sinn toll

„Evrópukepnin var gríðarlega skemmtilegt verkefni en tók einnig sinn toll. Leikmenn eru þreyttir orðnir og þar á ofan meiðsli. Hléið kemur þar með á góðum tíma fyrir okkur. Núna verðum til að hlaða rafhlöðurnar, fá leikmenn til baka og vinna í okkar málum. Ég er sannfærður um að þátttakan í Evrópukeppninni hjálpar okkur þegar á keppnistímabilið líður.


Þegar við höfum náð vopnum okkar á nýjan leik verðum við mun sterkari en að þessu sinni,“ sagði Andri Snær Stefánsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara KA/Þórs í samtali við handbolta.is á Ásvöllum í gær.

Stöðuna í Olísdeild kvenna má sjá hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -