- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kraftur og hraði í ÍR-ingum í nýliðaslagnum

Eldhressir ÍR-ingar eftir sigurinn á Fjölni í Grafarvogi í kvöld. Ljósmynd/ÍR
- Auglýsing -

ÍR-ingar hófu keppni í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld af miklum krafti þegar þeir sóttu Fjölnismenn heim í Egilshöllina. Þeir réðu lögum og lofum frá byrjun til enda og unnu stórsigur, 36:26, í slag nýliða deildinnar. Fjölnismenn náðu sér aldrei á strik, sérstaklega voru þeir heillum horfnir í fyrri hálfleik. Að honum loknum voru þeir sex mörkum undir, 18:12.

ÍR-ingar hreinlega yfirspiluðu leikmenn Fjölnis á köflum í leiknum. Vörnin var góð og hraðinn í liðinu mikill. Þeir náðu fjölda öllum af hraðaupphlaupum og refsuðu Fjölnismönnum hvað eftir annað. Engu var líkara en sviðsskrekkur væri í leikmönnum Fjölnis. Þeir gerðu hvert axarskaftið á eftir öðru í sókninni og náðu sér heldur ekki á strik í vörninni, þegar þeim tókst að stilla upp í vörn.

Ljóst er að framundan er þungur vetur hjá leikmönnum Fjölnis ef þeir leika ekki betur en þetta. Þeir geta ekki afhent andstæðingum sínum boltann á silfurfati hvað eftir annað. Þá á eftir að fara enn verr gegn enn sterkari liðum deildarinnar.

Eins og Bjarni Fritzson þjálfari ÍR sagði á dögunum í samtali við handbolta.is þá býr mikill kraftur og hraði í leikmönnum ÍR-liðsins. Þeir náðu honum svo sannarlega fram að þessu sinni og sýndu að þeir geta verið til alls líklegir í vetur gegn mörgum liðum deildarinnar haldi þeir uppteknum hætti.

Baldur og Bernard frábærir

Baldur Fritz Bjarnason var frábær í leiknum. Hann skoraði 13 mörk. Bernard Kristján Darkoh var sérstaklega góður í síðari hálfleik þegar hann sleppti fram af sér beislinu með hraða sínum og sprengikrafti. Þá réðu leikmenn Fjölnis ekkert við hann.

Fjöldi fólks lagði leið sína í Fjölnishöllina, stuðningsmenn beggja liða. Tókst þeim að halda uppi góðri stemningu sem framhald verður á.

Sjá einnig: Frábær leikur – ertu að grínast með stemninguna?

Mörk Fjölnis: Björgvin Páll Rúnarsson 9/2, Victor Máni Matthíasson 3, Haraldur Björn Hjörleifsson 3, Alex Máni Oddnýjarson 3, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 2, Róbert Dagur Davíðsson 2, Óðinn Freyr Heiðmarsson 2, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 1, Elvar Þór Ólafsson 1.
Varin skot: Sigurður Ingiberg Ólafsson 6, 20,7% – Bergur Bjartmarsson 4, 26,7%.

Mörk ÍR: Baldur Fritz Bjarnason 13/2, Bernard Kristján Darkoh 9, Róbert Snær Örvarsson 5, Viktor Freyr Viðarsson 2, Bergþór Róbertsson 2, Bjarki Steinn Þórisson 1, Andri Freyr Ármannsson 1, Nathan Doku Asare 1, Sigurvin Jarl Ármannsson 1, Ólafur Rafn Gíslason 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 6, 23,1% – Arnór Freyr Stefánsson 2/1, 25%.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildinni.

Tölfræði HBStatz.

Hjá HBStatz: Fram – Stjarnan, Olís kvenna, kl. 19.30.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í Fjölnishöllinni í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -