Danir eru skiljanlega í sjöunda himni eftir að landsliðs þeirra lagði heimsmeistara Frakka, 24:22, í undanúrslitum Evrópumóts kvenna í handknattleik í kvöld. Annað Evrópumótið í röð leikur danska landsliðið gegn því norska í úrslitaleik í Vínaborg á sunnudaginn sem verður fjórtándi og síðasti úrslitaleikur norska landsliðsins með Þóri Hergeirsson við stjórnvölin.
Úrslitaleikur Danmerkur og Noregs hefst klukkan 17 á sunnudaginn. Áður verða Frakkar og Ungverjar búnir að kljást um bronsverðlaunin. Franska landsliðið lék einnig um bronsið á EM 2022 en tapaði fyrir Svartfellingum.
Danska landsliðið var með undirtökin frá upphafi til enda gegn Frökkum í kvöld. Staðan var 13:11 að loknum fyrri hálfleik. Lokamínúturnar voru æsispennandi en Dönum tókst að halda Frökkum í skefjum.
Varnarleikur og stórbrotin frammistaða Anna Kristensen í markinu var lykillinn að sigri. Kristensen varði 16 skot, 43,2%,hlutfallsmarkvarsla.
„Ég er svo stolt af Önnu og hversu frábærlega hún stendur sig undir mikilli pressu. Hún hefur svo sannarlega unnið ötullega að því að standa í þeim sporum sem hún stendur í dag,“ sagði Kristina Jørgensen einn leikmanna danska landsliðsins kampakát fyrir frammistöðu markvarðarins og danska liðsins í undanúrslitaleiknum.
Léku af klókindum
„Það er hrikalega erfitt að vinna Frakka. Okkur tókst hinsvegar að kalla fram frábæra frammistöðu með klókum leik og með Önnu frábæra í markinu,“ sagði Anne Mette Hansen leikmaður danska landsliðsins í leikslok.
Hansen var markahæst í danska liðinu með sjö mörk. Mie Højlund var næst á eftir með fimm mörk.
Pauletta Foppa skoraði fjögur mörk fyrir Frakka og Grace Zaadi Deuna og Laura Flippers skoruðu þrjú mörk hvor.