- Auglýsing -
- Auglýsing -

Kristján og Kríumenn nýttu hraðann og veikleika Vængjanna

Kristján Orri Jóhannsson, leikmaður Kríu, er markakóngur Grill 66-deildar karla 2020/2021. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Kristján Orri Jóhannsson fór á kostum í enn eitt skiptið á leiktíðinni þegar hann skoraði 11 mörk fyrri Kríu í fimm marka sigri á Vængjum Júpíters í Grilll 66-deild karla í handknattleik í Dalhúsum í gærkvöld, 31:26. Leikurinn hófst klukkan 21.


Kría var með tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 12:10, og komst með sigrinum í 11 stig að loknum níu leikjum í fimmta sæti, aðeins þremur stigum á eftir Víkingi og HK sem eru efst.


„Þetta var skemmtilegur leikur þar sem leikmenn Kríu voru sterkari í síðari hálfleik þegar þeim tókst að nýta hraða sinn,“ sagði Arnór Ásgeirsson, þjálfari Vængja Júpiters við handbolta.is.

Slæmi kaflinn var dýr

„Þeim tókst að keyra á okkur með hraðaupphlaupum og seinni bylgju þegar við misstum taktinn í sóknarleiknum og enduðum sóknir okkar illa í síðari hálfleik. Slæmi kaflinn hjá okkur stóð yfir í um tíu mínútur sem nægði Kríu til að ná góðu forskoti. Það eru þó framfarir í okkar leik, ekki síst í sókninni þar sem við eru farnir að skora fleiri mörk en áður. Varnarleikur okkar var einnig góður í fyrri hálfleik,“ sagði Arnór ennfremur.


Sigurður Ingiberg Ólafsson, markvörður Kríu, reyndist leikmönnum Vængja einnig óþægur ljár í þúfu.

Endurheimtu Garðar

Það var leikmönnum Vængjanna mikið gleðiefni að endurheimta línumanninn sterka, Garðar Benedikt Sigurjónsson. Hann hefur misst af nokkrum leikjum. Garðar skoraði átta mörk í leiknum í gærkvöld og var markahæstur í sínu liði. „Það er gleðiefni að fá Garðar inn í liðið aftur auk þess sem það gjörbreytir leik okkar,“ sagði Arnór ennfremur. Vængir Júpiters mæta Herði frá Ísafirði í 10. umferð deildarinnar eftir rétt viku í Dalhúsum. Kría sækir ungmennalið Fram heim í næstu umferð á föstudaginn.

Staðan í Grill 66-deild karla.
Mörk Vængja Júpiters: Garðar Benedikt Sigurjónsson 8, Jón Hjálmarsson 5, Hlynur Már Guðmundsson 3, Gísli Steinar Valmundsson 3, Brynjar Loftsson 2, Jónas Bragi Hafsteinsson 2, Ragnar Áki Ragnarsson 1, Jónatan Vignisson 1, Ari Pétursson 1.

Mörk Kríu: Kristján Orri Jóhannsson 11, Jóhann Kaldal Jóhannsson 5, Viktor Andri Jónsson 4, Aron Valur Jóhannsson 2, Árni Benedikt Árnason 2, Vilhjálmur Geir Hauksson 1, Henrik Bjarnason 1, Gunnar Valur Arason 1, Egill Ploder Ottósson 1, Hlynur Bjarnason 1, Viktor Orri Þorsteinsson 1.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -