Kristrún Steinþórsdóttir fyrrverandi leikmaður Selfoss tryggði Fram eins marks sigur á liði Selfoss, 30:29, í Olísdeild kvenna í handknattleik í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal. Framarar lentu í kröppum dansi nærri leikslokum viðureignarinnar eftir að hafa verið sex mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:11.
Með sigrinum fór Fram aftur upp að hlið Hauka í annað til þriðja sæti deildarinnar með 24 stig eftir 15 leiki. Viðureignin sem fram fór í dag átti að vera leikin á dögunum en var frestað vegna foráttuveðurs og ófærðar á Hellisheiði og um Þrengsli. Selfoss situr sem fastast í fjórða sæti með 15 stig, aðeins tveimur stigum á undan ÍR sem vann Stjörnuna í dag. Selfoss á leik til góða á ÍR.
Eftir að hafa verið mikið sterkari í fyrri hálfleik þá náði Framliðið ekki að sýna sitt rétta andlit í síðari hálfleik. Varnarleikur og markvarsla dofnaði til muna eða þá að sóknarleikur Selfossliðsins batnaði svo um munaði. Um miðjan síðari hálfleik var forskot Fram fjögur mörk, 24:20, en það var átta mörk, 23:15, þegar 10 mínútur voru liðnar af leiktíma síðari hálfleiks.
Jafnt og þétt saxaði Selfossliðið niður forskot Fram og svo fór að Harpa Valey Gylfadóttir jafnaði metin, 27:27, þegar innan við fimm mínútur voru til leiksloka. Þá tóku við spennuþrungnar loka mínútur.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk Fram: Lena Margrét Valdimarsdótti 8, Þórey Rósa Stefánsdóttir 6, Alfa Brá Hagalín 4, Kristrún Steinþórsdóttir 4, Harpa María Friðgeirsdóttir 3, Steinunn Björnsdóttir 3, Berglind Þorsteinsdóttir 1, Karen Knútsdóttir 1/1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 8, 36,4% – Darija Zecevic 4, 21,1%.
Mörk Selfoss: Hulda Dís Þrastardóttir 8/3, Perla Ruth Albertsdóttir 7/1, Harpa Valey Gylfadóttir 6, Katla María Magnúsdóttir 4, Arna Kristín Einarsdóttir 2, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 1, Eva Lind Tyrfingsdóttir 1.
Varin skot: Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 9, 23,1%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.