Íslenska landsliðið vann 21 marks sigur á Kúbu í annarri umferð G-riðils heimsmeistaramótsins í handknattleik karla í Zagreb Arena í kvöld, 40:19, eftir að hafa verið 12 mörkum yfir í hálfleik, 21:9. Landsliðið hélt fullum dampi allan leikinn og náði mest 23 marka forskoti, 39:16. Auk þess að gulltryggja sæti í milliriðlum þá markaði leikurinn upp þátttöku Arons Pálmarssonar í mótinu. Hann lék með fyrstu 15 mínúturnar, skoraði þrjú mörk og gaf fjórar stoðsendingar.
Íslenska landsliðið skoraði 11 mörk í röð í fyrri hálfleik og komst yfir, 17:5, eftir um 20 mínútur. Þar með má segja að leiknum hafi lokið og nokkuð jafnt á komið með leikmönnum sem vildu eflaust gjarnan ljúka leiknum sem fyrst. Þess gafst þó ekki kostur.
Að þessu sinni hélt íslenska liðið fullum dampi til loka leiksins eins og landsliðsþjálfarinn hefur kallað eftir.
Fjórtán af sextán leikmönnum skoruðu að minnsta kosti eitt mark. Aðeins Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður, og Ýmir Örn Gíslason skoruðu ekki.
Leikurinn gefur ákveðinn fyrirheit um það sem koma skal þegar alvaran hefst á mánudaginn með leiknum við Slóvena. Einbeiting og vilji er fyrir hendi og að halda þennan leik út og vinna stórsigur er góðs viti þótt næsta verkefni verði gjörólíkt.
Mörk Íslands: Þorsteinn Leó Gunnarsson 5, Orri Freyr Þorkelsson 5/1, Elliði Snær Viðarsson 5, Viggó Kristjánsson 4/4, Óðinn Þór Ríkharðsson 3, Bjarki Már Elísson 3, Aron Pálmarsson 3, Sigvaldi Björn Guðjónsson 3, Elvar Örn Jónsson 2, Sveinn Jóhannsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Janus Daði Smárason 1, Teitur Örn Einarsson 1, Björgvin Páll Gústavsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 8, 47,1% – Björgvin Páll Gústavsson 6/1, 37,5%.
Handbolti.is var í Zagreb Arena og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.