Örvhenta skyttan, Lena Margrét Valdimarsdóttir, hefur ákveðið að söðla um og semja við Stjörnuna til næstu þriggja ára. Lena hefur frá barnsaldri leikið með Fram og skiptir þar af leiðandi ekki um búningalit þótt hún klæðist búningi annars félags frá og með næsta keppnistímabili.
Lena Margrét hefur verið Íslandsmeistari með Fram í tvígang og átti sæti í öllum yngri landsliðum Íslands. Hún var meðal annars í U-20 ára liðinu sem varð í 10. sæti á HM fyrir þremur árum. Þá var hún einnig í U-18 ára liðinu.
Lena Margrét hefur á undanförunum árum leikið jöfnum höndum með Framliðinu í Olísdeild og ungmennaliði Fram í Grill 66-deildinni. Hún skoraði 56 mörk í 14 leikjum í Olísdeildarinnar í haust, vetur og í vor og 40 mörk mörk í sjö leikjum ungmennaliðs Fram í Grill 66-deildinni.