- Arnór Atlason og liðsmenn hans í TTH Holstebro unnu í kvöld Skjern, 24:23, í grannaslag í Skjern í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. TTH Holstebro er þar með komið upp í sjöunda sæti deildarinnar með sjö stig að loknu sjö leikjum. Vafalaust er leikmenn og þjálfari einnig í sjöunda himni með sigurinn.
- Andrea Jacobsen kom lítið við sögu og skoraði m.a. ekki mark þegar lið hennar, Silkeborg-Voel, tapaði fyrir Skanderborg Håndbold, 30:26, í viðureign liðanna í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld. Leikurinn fór fram í Skanderborg á Jótlandi. Silkeborg-Voel situr í áttunda sæti deildarinnar með sex stig eftir sex umferðir.
- Bergischer HC komst í kvöld í 16-liða úrslit þýsku bikarkeppninnar í handknattleik með öruggum sigri á Nordhorn, 35:26. Arnór Þór Gunnarsson er í þjálfarateymi Bergischer.
- Liðsmenn Hannover-Burgdorf féllu úr leik í bikarkeppninni í Þýskalandi með tveggja marka tapi fyrir 2. deildarliði Bietigheim, 31:29, á heimavelli Bietigheim í nágrenni Stuttgart. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem gert hefur það gott í þýsku 1. deildinni.
- Íslendingaliðið Skara HF stendur höllum fæti eftir 13 marka tap fyrir Västeråslrsta, 34:21, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í kvöld. Leikurinn fór fram í Skara. Liðin mætast á ný í Västeråslrsta á laugardaginn. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði þrjú mörk fyrir Skara HF og Aldís Ásta Heimisdóttir tvö. Katrín Tinna Jensdóttir skoraði ekki marki enda lék hún mest í vörninni.
- Berta Rut Harðarsdóttir skoraði fjögur mörk fyrir Kristianstad HK í öruggum sigri á BK Heid, 31:23, á heimavelli Heid í Västra Frölunda í 16-liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í kvöld. Berta Rut og samherjar standa vel að vígi fyrir heimaleikinn á laugardaginn.
- Topplið norsku úrvalsdeildarinnar, Drammen, komst í kvöld áfram í norsku bikarkeppninni í handknattleik með sigri á Fjellhammer, 28:25, í Drammen í kvöld. Róbert Sigurðarson skoraði eitt mark fyrir Drammen og hinn hálf íslenski Viktor Petersen Norberg skoraði tvisvar sinnum. Ásgeir Snær Vignisson skoraði tvö mörk fyrir Fjellhammer.
- Nærbø, sem mætir Aftureldingu í Evrópubikarkeppninni í handknattleik karla 14. og 21. þessa mánaðar, vann ØIF Arendal, 31:30, á heimavelli í norsku bikarkeppninni í kvöld. Dagur Gautason skoraði fjögur af mörkum ØIF Arendal og Hafþór Már Vignisson tvö.
- Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk, þar af tvö úr vítaköstum, í stórsigri Kolstad á Viking TIF, 42:21, í bikarkeppninni í Noregi í kvöld. Kolstad vann bikarkeppnina á síðustu leiktíð. Þess má geta til fróðleiks að Nicholas Satchwell fyrrverandi markvörður KA stóð um stund í marki Viking TIF og varði 2 skot, 14%.
- Auglýsing -