- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Landslið Sviss varð fyrir áfalli – sjötti leikmaður Magdeburg meiðist

Manuel Zehnder t.h. í leik með landsliði Sviss. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Andy Schmid landsliðsþjálfari Sviss í handknattleik varð fyrir áfalli í gærkvöld þegar kjölfesta landsliðsins, Manuel Zehnder leikmaður Magdeburg, meiddist á vinstra hné um miðjan síðari hálfleik í viðureign við ítalska landsliðið í fyrstu umferð fjögurra liða móts (Yellow Cup) í Winterthur í Sviss. Óttast er að meiðsli Zehnder, sem var markakóngur þýsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð, séu alvarleg. Hann fer í ítarlegri rannsóknir um helgina.


Ítalir voru með frumkvæðið í leiknum nær allan tímann og unnu með tveggja marka mun, 31:29. Í hinni viðureign mótsins í gær vann hollenska landsliðið 12 marka sigur á landsliði Kósovó, 36:24. Mótinu verður haldið áfram í dag þegar Holland og Ítalía eigast við og Sviss og Kósovó.

Meiðslalistinn lengist

Séu meiðsli Zehnder alvarleg, eins og óttast er, eru þau enn eitt áfallið fyrir þýska meistaraliðið SC Magdeburg sem þegar er með Ómar Inga Magnússon, Oscar Bergendahl, Felix Claar, Tim Hornke og Philipp Weber á sjúkralista. Claar og Hornke hafa verið frá keppni síðan á Ólympíuleikunum í ágúst.

Rúmenar og Serbar unnu

Í Mioveni í Rúmeníu hófst í gær fjögurra þjóða móti í handknattleik karla meðal landsliða sem taka ekki þátt í heimsmeistaramótinu. Serbar unnu öruggan sigur á Georgíu, 35:25, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:11.

Rúmenar lögðu landslið Tyrklands með níu marka mun, 35:26. Rúmenska liðið var sjö mörkum yfir í hálfleik, 14:7.

Í dag mætast Serbar og Rúmenar annars vegar og Tyrkland og Georgía hinsvegar. Mótinu lýkur á morgun með viðureignum Serba og Tyrkja og Rúmena og Georgíumanna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -