Landsliðskonurnar Díana Dögg Magnúsdóttir og Sandra Erlingsdóttir urðu að bíta í það súra epli að vera í tapliðum í kvöld í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Díana Dögg og liðsmenn BSV Sachsen Zwickau töpuðu á heimavelli fyrir Bensheim/Auerbach, 32:25. Á sama tíma beið TuS Metzingen lægri hlut í viðureign við Oldenburg, 30:26, í EWE-Arena í Oldenburg.
Díana á heimleið – Sandra á leik eftir
Díana Dögg hefur þar með lokið leik með BSV Sachsen Zwickau á árinu og stefnir heim til Íslands á morgun en Sandra á eftir einn leik með TuS Metzingen á heimavelli á sunnudaginn gegn Bad Wildungen Vipers. Það verður síðasti leikurinn í þýsku 1. deildinni áður en hlé verður gert vegna heimsmeistaramótsins í handknattleik sem hefst um mánaðamótin. Sandra og Díana eiga eftir að standa í ströngu á mótinu með íslenska landsliðinu.
Fimm hjá Söndru
Sandra skoraði fimm mörk, öll úr vítaköstum, og átti tvær stoðsendingar í Oldenburg í kvöld. Heimaliðið var öflugra frá upphafi til enda og hafði fjögurra marka forskot í hálfleik, 14:10, og einnig þegar leiktíminn var úti, 30:26.
TuS Metzingen varð fyrir áfalli á dögunum þegar markvörðurinn Lea Naomi Schüpbach sleit krossband.
Eiga möguleika á fimmta sæti
Tus Metzingen er í 7. sæti 1. deildar með átta stig eftir sjö leiki en ætti að ná upp í fimmta sæti gangi allt að óskum á sunnudaginn en andstæðingurinn þá, Bad Wildungen, er í næst neðsta sæti.
Í sókn eftir veikindi
Díana Dögg skoraði sex mörk fyrir BSV Sachsen Zwickau gegn Bensheim/Auerbach og var næst markahæst í liðinu. Hún er óðum að sækja í sig veðrið eftir veikindi í síðustu viku sem þó komu ekki veg fyrir þátttöku í kappleik á þeim tíma. Díana Dögg átti einnig fjórar stoðsendingar í leiknum í kvöld, vann fjögur vítaköst, stal boltanum í eitt skipti og varð einu sinni að sitja utan vallar í tvær mínútur.
Engin markvarsla
„Þetta var ekki slæmur leikur hjá okkur. Færanýtingin hefði mátt vera betri og markvarslan var nær engin,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is í kvöld. Bensheim/Auerbach var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:12.
BSV Sachsen Zwickau er í 11. sæti með fjögur stig eftir átta leiki. Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.
Hér fyrir neðan er hægt að sjá nokkra kafla úr leik BSV Sachsen Zwickau og Bensheim/Auerbach í kvöld.