Portúgalski landsliðsmaðurinn Miguel Martins er laus úr keppnisbanni vegna meintrar notkunar ólöglegra lyfja. Hann getur þar með hafið leik með Aalborg Håndbold við fyrsta tækifæri og verður e.t.v. með liðinu dag í undanúrslitum dönsku bikarkeppninnar. Málið, sem er með nokkrum ólíkindum, kom upp á yfirborðið rétt áður en heimsmeistaramótið í handknattleik hófst í síðasta mánuði. Vegna þess lék Martins ekki með portúgalska landsliðinu á HM og var skarð fyrir skildi.
Ársgamalt lyfjapróf
Samkvæmt frétt TV2 í Danmörku var lyfjaprófið tekið 13. janúar 2024 þegar Martins lék með portúgalska landsliðinu á EM í Þýskalandi. Af einhverjum sökum féll það á milli stafs og hurðar.
Svokallað A-sýni reyndist innihalda of hátt gildi af testosteron en B-sýnið, sem á strangt til tekið að vera hluti af A-sýninu, sýndi aðra niðurstöðu og betri fyrir Martins. Þess vegna er honum heimilt að hefja keppni á nýjan leik.
Hefur flutt á milli landa
Martins var leikmaður Pick Szeged fyrir ári þegar hann gekkst undir lyfjaprófið en gekk í raðir Aalborg Håndbold síðasta sumar.
Um var að ræða þvagprufu sem Martins skilaði af sér í fyrrgreindu lyfjaprófi. Prufunni var skipti í tvennt, A- og B-sýni, eins og gert er í lyfjaprófum. Þar af leiðandi er sérstakt að ekki skuli vera samhljómur í niðurstöðunni. Enn dæmalausara er að heilt ár hafi tekið að birta niðurstöðuna. B-sýnið er rannsakað ef A-sýnið reynist jákvætt nema að sá sem fellur viðurkenni sök umbúðalaust þegar niðurstaðan A-sýnis liggur fyrir.