- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Langar að ná úrslitakeppninni

Andrea Jacobsen handknattleikskona hjá Kristianstad í Svíþjóð. Mynd/Kristianstad Handboll
- Auglýsing -

„Endurhæfingin hefur gengið vel en það á enn eftir að líða nokkur  tími þangað til ég fer að æfa inn í handboltasal með liðinu,“ segir landsliðskonan í handknattleik, Andrea Jacobsen, þegar handbolti.is sló á þráðinn til að forvitnast um hvernig henni vegnaði um þessar mundir. Andrea sem er leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Kristianstad sleit krossband  í febrúar og gekkst undir aðgerð í lok þess mánaðar.  

Sárabót í bataferli

Mitt í bataferlinu í sumar þá bauð félagið henni nýjan tveggja ára samning sem hún skrifaði hiklaust undir. Sárabót og um leið hvatning sem félagið veitti henni en það reynir mjög á íþróttamenn að koma til baka eftir jafn langa og stranga endurhæfingu og þá sem Andrea er í og hefur verið í undanfarna mánuði.

Andrea býr með handknattleiksmanninum Teiti Erni Einarssyni sem leikur með IFK Kristianstad. Teitur eins og Andrea hefur leikið með íslenska landsliðinu. Þarna er á ferðinni metnaðarfullt og dugmikið handknattleikspar.  Þau kunna vel við sig í Kristianstad  og hafa nýverið flutti í nýja íbúð. Andrea segir það vera allt annað líf.

Mikill íþróttaáhugi

Kristianstad er ekki stór bær en mikill íþróttaáhugi er fyrir hendi og handboltinn er í öndvegi ásamt kvennaliðinu í knattspyrnu og hokkííþróttinni sem nýtur víða mikillar hylli í Svíþjóð. Afar góð aðsókn er á kappleiki meðal bæjarbúa.

„Það kom mér virkilega á óvart hversu fljótt eftir aðgerðina sjúkraþjálfarinn vildi fara til æfinga í lyftingasalnum. Ekki liðu nema þrjár vikur,eða þar um bil frá aðgerð, og þangað til ég var byrjuð að æfa af þeim krafti sem mögulegur var,“ segir Andrea sem segist hlakka til hverrar æfingar. Það togi í að geta mætt út á keppnisvöllinn á ný í góðu formi.

Líður ár á milli leikja?

„Það eru sjö mánuðir síðan ég fór í aðgerðina. Sennilega fer ég einhverntímann á næstu vikum að mæta úr völl og æfa en ég reikna ekki með að byrja að keppa með liðinu fyrr en eftir fjóra til fimm mánuði. Þá verður um ár frá því að ég fór í aðgerðina,“ segir Andrea sem þykir  tíminn hafa liðið hratt þrátt fyrir allt.

„Ég trúi því varla að komnir séu sjö mánuðir síðan ég fór í aðgerðina. Ég hef lagt hart að mér við æfingar síðustu mánuði og verð bara að segja það að ég hef verið mjög samviskusöm.“

Heldur í við liðsfélaga Teits

„Ég æfi flesta daga eftir ákveðnu prógrammi en hitti sjúkraþjálfara fast tvisvar í viku í líkamræktarstöðinni þar sem ég æfi. Það hefur einnig verið hvetjandi í þessu ferli að um nokkurt skeið hef ég æft með með tveimur liðsfélögum Teits, sem einnig eru að ná sé af erfiðum meiðslum. Og satt að segja þá held ég alveg í við þá sem er nokkuð sem ég er alveg ótrúlega sátt við.

Sjálfstraustið hefur einnig vaxið stig af stigi, ekki síst þegar maður verður var við framfarir nánast með hverri æfingunni. Ég hef alltaf haft gaman að því að lyfta og styrkja mig þannig að þessir mánuðir í lyftingasalnum hafa verið mjög skemmtilegir.

„Ég trúi því varla að komnir séu sjö mánuðir síðan ég fór í aðgerðina. Ég hef lagt hart að mér við æfingar síðustu mánuði og verð bara að segja það að ég hef verið mjög samviskusöm.“

Enginn ótti

„Ég finn ekki fyrir hræðslu og hef verið tilbúin að leggja meira og meira álag á hnéð, vitanlega undir eftirliti og leiðsögn sjúkraþjálfarans. Ég átti alveg von á að verða hræddari því endurhæfing eftir erfið meiðsli reynir verulega á andlegan styrk og að treysta viðgerðinni, ef svo má segja.“

Andrea segir enga pressu vera fyrir hendi af hálfu forráðamanna félagsins eða þjálfarana um að hún reyni að koma fyrr út á leikvöllinn. Hún fái þann tíma sem þarf. „Ég mæti hinsvegar á allar æfingar hjá stelpunum þótt ég taka ekki þátt í æfingunum með þeim. Ég er bara alltaf á mínum stað,“ segir Andrea létt í bragði.

Þakklát fyrir samninginn

Eins og fyrr segir þá skrifaði Andrea undir nýjan samning við Kristianstad í sumar, svokallaðann einn plús einn samning, þ.e. uppsagnarákvæði eftir ár, það er um mitt næsta sumar.  „Ég er mjög þakklát fyrir að hafa staðið til boða nýr samningur í sumar sem leið.“

Kristianstad lék í B-deild á síðasta keppnistímabili sem lauk snemma af ástæðum sem flestir þekkja. Þegar keppni var slaufað var liðið efst í B-deildinni og fluttist upp í efstu deild á nýja leik, þar sem það hefur lengi verið með undantekningu á síðasta leiktímabili.  Andrea segist vonast til ná endasprettinum í deildarkeppninni síðla vetrar eða í byrjun vors. „Ég er ekkert að stressa mig á því að mæta út á völlinn. Sjúkraþjálfarinn metur hvenær hann telur mig vera tilbúna í slaginn á ný. Auðvitað langar mig að ná að minnsta kosti úrslitakeppninni í vor,“ segir Andrea Jacobsen, landsliðskona í handknattleik og leikmaður Kristianstad í Svíþjóð.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -