- Auglýsing -
- Auglýsing -

Launa FH-ingar Eyjamönnum lambið gráa?

Leikmenn FH fagna góðum sigri í Vestmannaeyjum í kvöld með fjölda stuðningsmanna sem mættu á leikinn. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -

FH-ingar hreinlega kjöldrógu leikmenn ÍBV í annarri viðureign liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag. Deildarmeistararnir unnu með átta marka mun, 36:28, eftir að hafa verið tveimur mörkum yfir í hálfleik. FH hefur þar með tvo vinninga en ÍBV engan.

Næsta viðureign liðanna verður í Kaplakrika á sunnudagskvöldið og hefst klukkan 18.30. FH-ingar tekst með sigri í þeirri viðureign að launa Íslandsmeisturum síðasta árs lambið gráa eftir rimmuna í undanúrslitum á síðasta ári. Þá sópaði ÍBV liði FH úr leik í þremur leikjum. Nokkuð sem er geymt en ekki gleymt meðal leikmanna FH.

Stórkostlegur sóknarleikur

Víst er að með svipaðri spilamennsku eru FH-ingar til alls líklegir til sigurs á sunnudaginn. Sóknarleikur liðsins var frábær annan leikinn í röð. FH hefur skoraði 72 mörk í tveimur leikjum í röð gegn leikmönnum ÍBV sem oftast nær hafa átt ráð undir rifi hverju þegar kemur að því að verjast.

Leikmenn ÍBV fengu ekki við neitt ráðið og virtust nánast hafa lagt árar í bát síðustu 10 mínúturnar. Eða voru yfirburðir FH-inga svona miklir? Arnór Viðarsson virtist vera besti maður liðsins þrátt fyrir að vera meiddur.

Aron Pálmarsson lék við hvern sinn fingur, skoraði 10 mörk og skapaði átta marktækifæri. Fleiri lögðu hönd á plóg, jafnt í vörn sem sókn.

Mörk ÍBV: Arnór Viðarsson 6, Daniel Esteves Vieira 5, Elmar Erlingsson 4, Nökkvi Snær Óðinsson 4, Sigtryggur Daði Rúnarsson 3, Kári Kristján Kristjánsson 2, Gauti Gunnarsson 2, Gabríel Martinez Róbertsson 1, Ísak Rafnsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 9, 25% – Pavel Miskevich 1, 11,1%.

Mörk FH: Aron Pálmarsson 10/3, Símon Michael Guðjónsson 6, Einar Bragi Aðalsteinsson 5, Ásbjörn Friðriksson 4, Birgir Már Birgisson 3, Jón Bjarni Ólafsson 3, Einar Örn Sindrason 2, Jóhannes Berg Andrason 2, Leonharð Þorgeir Harðarson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 11/2, 28,2%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -