Segja má að leiðurblökur hafi sett forráðamönnum danska meistaraliðsins Aalborg Håndbold stólinn fyrir dyrnar. Framkvæmdir félagins við fjölgun bílastæða nærri keppnishöll félagsins eru í uppnámi vegna þess að þær raska búsvæðum leðurblakna sem eru á svæðinu. Tilraunir til þess að koma upp nýju búsvæði hafa ekki tekist vegna þess að leðurblökurnar eru m.a. ekki tilbúnar að viðhalda kyni sínu á nýjum stað, samkvæmt fregnum danskra fjölmiðla.
Leðurblökur er friðaðar og því hægara sagt en gert að raska ró þeirra.
400 bílastæði
Gríðarlegur áhugi er fyrir Álaborgarliðinu. Sjaldan sækja færri en 5.000 áhorfendur leiki liðsins. Meira að segja seldust yfir 5.000 aðgöngumiðar á æfingaleik liðsins á dögunum. Þrátt fyrir hvatningu um að nýta almenningssamgöngur hafa flestir skellt skollaeyrum við. Vegna fjölda fólks og bíla á leikdögum er mörgum bílum lagt ólöglega á grænum svæðum nærri keppnishöllinni. Til þess að draga úr þessu hefur félagið í samstarfi við yfirvöld í Álaborg í hyggju að breyta grænu svæði nærri höllinni í bílastæði fyrir 400 bifreiðar.
Dýravernd og búsvæði
Leðurblökur hafa fyrir löngu komið sér fyrir á svæðinu sem nefnist Jægergården, nálægt Sparekassen Danmark Arena. ESB-reglur skylda sveitarfélagið til að vernda bæði dýrin og búsvæði þeirra.
Neita að flytja
Sveitarfélagið hefur reynt að „flytja“ leðurblökurnar en ekki haft erindi sem erfiði. Leiðurblökurnar hafa ekki látið segjast og líkar ekki lífið á nýjum stað. Skýrasta dæmið er að af einhverjum ástæðum fjölga dýrin sér ekki á nýju búsvæði sem er auk þess ekki eins nærri veiðistöðum. Hugsanlegar hangir þetta tvennt saman.
Engu að síður vonast sveitarfélagið til að finna lausn. Á meðan verða bæði aðdáendur Aalborg Håndbold og bílar að sætta sig við núverandi aðstæður. Náttúrufræðingar á vegum Álaborgar sitja sveittir við að finna leið að jafnvægi milli áhugafólks um handbolta á einkabílum og líffræðilegs fjölbreytileika.