Þýski hornamaðurinn Patrick Groetzki hefur ákveðið að komandi leiktíð verði hans síðasta. Skórnir verða settir á hilluna í júní á næsta ári og við tekur starf í stjórnendateymi Rhein-Neckar Löwen. Groetzki er einn fárra handknattleiksmanna sem leikið hefur með sama félagi allan ferilinn í meistaraflokki, alls 19 tímabil hjá Rhein-Neckar Löwen.
Auk ótrúlegrar tryggðar við Rhein-Neckar Löwen var Groetzki um langt árabil fastur leikmaður í þýska landsliðinu. Alls eru landsleikirnir 143. Hann gat ekki verið með á HM í upphafi þessa árs vegna meiðsla en hver veit nema að Groetzki ljúki landsliðsferlinum á EM í upphafi næsta árs.
Groetzki kom til Rhein Neckar Löwen 18 ára gamall árið 2007 frá SG Pforzheim/Eutingen. Hann hefur tekið þátt í öllum sigrum Rhein-Neckar Löwen en liðið varð þýskur meistari 2016 og 2017, vann bikarkeppnina 2017 og 2023 og EHF-bikarinn 2013 undir stjórn Guðmundar Þórðar Guðmundssonar og með Alexander Petersson og Stefán Rafn Sigurmannsson á meðal samherja.