- Auglýsing -
- Auglýsing -

Leið eins og við værum að fara að vinna

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, fylgist með af hliðarlínunni í spennandi leik kvöldsins. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

„Ég er hundsvekktur að hafa ekki unnið. Mér leið vel fyrir leikinn og fannst við vel undirbúnir. Mér leið bara eins og við værum að fara að vinna þennan leik,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu í samtali við handbolta.is eftir jafntefli liðsins við Aftureldingu í Olísdeild karla í handknattleik í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld, 28:28.


Grótta átti síðustu sókn leiksins en tókst ekki að færa sér hana í nyt. Það kom liðinu í koll að skora aðeins eitt af síðustu mörkunum sem skoruð voru í leiknum.

Erum komnir á sama stað

„Ég vil ekki fara í sama farið og sumir þjálfarar í deildinni og segja að við séum betri en þetta lið sem við vorum að spila við en ég vil þó halda því fram að við séum komnir á sama stað. Eini munurinn er sá að okkur vantar herslumuninn upp á að vinna leikina,“ sagði Arnar Daði en lið hans gerði jafntefli við Selfoss í síðustu umferð Olísdeildar. Selfoss stendur Aftureldingu jafnfætis í deildinni þegar litið er á stigatöfluna.

Vantaði lítið upp á

„Við vorum þremur mörkum yfir þegar stutt var til leiksloka en tókst ekki að nýta færin. Það vantar svo lítið upp á að vera með fjögur stig eftir tvo síðustu leiki í stað tveggja,“ sagði Arnar Daði og undirstrikaði að síðustu leikir Gróttu og Aftureldingar hafa verið jafnir. Vart hafi mátt á milli sjá í þeim.

Vildum hrista upp í baráttunni

„Ég er ósáttur yfir að hafa ekki unnið leikinn og ná um leið að hrista aðeins upp í baráttunni um áttunda sætið. Við stöndum flestum liðum á sporði en vantar herslumuninn upp á að ná sigrum í jöfnu leikjunum eins og liðin fyrir ofan eru stundum að ná. Þetta er sagan endalausa,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu í samtali við handbolta.is í Hertzhöll Gróttumanna eftir leikinn í kvöld.

Ríflega tveggja vikna hlé verður nú á keppni í Olísdeild karla vegna úrslita í Coca Cola-bikarnum næstu daga og æfingabúða A-landsliðsins í næstu viku


Stöðuna í Olísdeild karla er að finna hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -