- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Leiðir skilja hjá Rúnari og Ribe-Esbjerg

Rúnar Kárason gengur til liðs við ÍBV í sumar. Mynd/Ribe Esbjerg, Andersen.dk
- Auglýsing -

Eftir þrjú ár í herbúðum Ribe-Esbjerg þá skilja leiðir Rúnars Kárasonar og félagsins eftir núverandi keppnistímabil næsta vor. Þá rennur samningur hans við félagið út. Rúnar staðfesti þetta í samtali við handbolta.is. Hann segir niðurskurð útgjalda vera framundan hjá Ribe-Esbjerg og þar með ljóst að breytingar verða á leikmannahópnum.

Á þessari stundu segist Rúnar ekki vera viss hvað taki við, hvort hann skoði aðra kosti í Danmörku eða flytji heim. Eftir 12 keppnistímabil sem atvinnumaður í Þýskalandi og í Danmörku sé e.t.v. ástæða til að rifa seglin og flytja heim með eiginkonu, Söru Sigurðardóttir, og tveimur börnum.

Allir draumar taka enda

„Eins og staðan er þá flytjum við sennilega heim í sumar,“ sagði Rúnar í samtali við handbolta.is í dag. „Það kemur að minnsta kosti sterklega til greina að stíga það skref. Allir draumar taka einhverntímann enda og mál kannski komið hjá mér að byrja að lifa hinu venjulega lífi.

Við vorum að velta fyrir okkur að breyta til eftir þetta tímabil þegar ég var kallaður á fund og tilkynnt að vegna mikils niðurskurðar þá stæði mér ekki til boða nýr samningur. Þannig að segja má að það hafi verið tekin ákvörðun fyrir okkur,“ sagði Rúnar í samtali við handbolta.is í dag.

Ætti kannski að vera fúll

„Maður ætti kannski að vera fúll með að liðið vilji ekki halda manni vegna þess að maður hefur verið leikið mjög vel. En svona er þetta og kannski er það bara ákveðinn léttir,“ sagði Rúnar sem hefur leikið einstaklega vel á leiktíðinni þótt liði hans hafi ekki vegnað sem best.
Rúnar hefur þrisvar verið valinn í lið vikunnar og var á dögunum útnefndur leikmaður úrvalsdeildarinnar fyrir nóvembermánuð. Einnig er hann í hópi efstu manna bæði yfir markahæstu menn og eins þá sem eiga flestar stoðsendingar.

Betri með hverju ári


„Í gegnum tíðina hef ég haldið vel á spöðunum og aldrei tekið skref aftur á bak. Ég hef bætt mig í líkamlegu formi með hverju ári sem hefur liðið af þessum tólf árum sem ég hef verið úti í atvinnumennsku. Á móti kemur að ég er aðeins farinn að verða meira var við að tvö krossbandaslit sem ég varð fyrir á sínum tíma koma niður á æfingagetunni og ákefðinni,“ segir Rúnar sem lokar engum dyrum á þessari stundu.


„Það eru einhverjir möguleikar fyrir mig hér í Danmörku. Við sjáum hvað gerist þegar kemur fram í febrúar eða mars. Þá fer væntanlega að hilla undir ákvörðun á annan hvorn veginn,“ sagði Rúnar Kárason handknattleiksmaður hjá danska úrvalsdeildarliðinu Ribe-Esbjerg í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -