Serbinn Igor Mrsulja og Japaninn Akimasa Abe sem Grótta hefur samið við eru ekki komnir með leikheimild hér á landi. Þetta staðfesti Arnar Daði Arnarsson, þjálfari karlaliðs Gróttu, við handbolta.is í kvöld. Arnar Daði sagði að ólíklegt væri að leikmennirnir tveir verði með Gróttu á fimmtudagskvöldið þegar liðið tekur á móti Stjörnunni í 16-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi.
Arnar Daði sagði að talsverð vinna hafi farið í að útvega öll þau gögn sem verði að leggja fram til þess að Mrsulja og Abe fái atvinnuleyfi hér á landi þar sem báðir eru þeir frá ríkjum utan evrópska efnahagssvæðisins.
Mrsulja er kominn með dvalarleyfi sem er ein forsendan fyrir að hægt sé að veita leikheimild. Bið eftir atvinnuleyfi stendur yfir.
Abe kom síðar inn í myndina hjá Gróttu en Mrsulja. Þar af leiðand væru mál sem að honum sneri komin skemmra á veg. „Hans mál voru að fara í ferli í dag,“ sagði Arnar Daði við handbolta.is. „Það er ólíklegt að þeir leiki með okkur á fimmtudaginn en við getum samt sem áður ekki útilokað það með öllu,“ sagði Arnar Daði sem er að hefja sitt annað keppnistímabil í stóli þjálfara karlaliðs Gróttu í Olísdeild karla.